Mynd af Hengifossi verðlaunuð í alþjóðlegri samkeppni

Svarthvít ljósmynd af Hengifossi í Fljótsdal hlaut nýverið sérstök verðlaun í alþjóðlegri samkeppni landslagsljósmyndara.

Það var Hollendingurinn Daniel Laan sem tók myndina sem var valin besta svarthvíta myndin í samkeppninni. Takan hefur verið tæknilega krefjandi því myndin virðist tekin að nóttu miðað við stjörnur og annað sem sjá má yfir fossinum. Laan getur flokkast í hóp Íslandsvina því hann stendur fyrir reglulegum ljósmyndaferðum hingað til lands þar sem sérstök áhersla er lögð á næturmyndatöku.

Keppnin kallast „The International Landscape Photographer of the Year Awards.“ Eins og nafnið ber með sér senda ljósmyndarar úr öllum heiminum inn landslagsmyndir.

Þetta er í níunda sinn sem samkeppnin er haldin. Að þessu sinni bárust ríflega 3800 myndir í samkeppnina. Af þeim valdi dómnefnd 101 mynd sem koma út á bók. Þar gefur að líta fleiri myndir frá Íslandi, Laan á til að mynda aðra mynd tekna í Reynisfjöru undir norðurljósum en þar má einnig finna myndir úr Skaftafelli, frá Fagradalsfjalli og af hálendinu. Aðrar verðlaunamyndir má sjá á vef keppninnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.