Mikilvægt að jólasveinarnir hugi að smitvörnum þegar þeir fara milli húsa

Almannavarnir segjast ekki hafa teljandi af áhyggjur af komu jólasveina til byggða á tímum Covid-veirunnar. Þeir verði hins vegar að fara að öllu með gát þegar þeir fara milli byggðarlaga, ekki síst þar sem foreldrar þeirra og trúlega þeir sjálfir séu í áhættuhópi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Rögnvaldar Ólafssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sem staðið hefur vaktina sem hluti þríeykisins síðustu daga. Von er á fyrsta jólasveininum, Stekkjastaur, til byggða í nótt. Ekki er vitað með vissu hvar jólasveinarnir hafa dvalist að undanförnu, en vitað er að þeir eiga sér meðal annars bústaði í fjöllunum á Austurlandi og hafa væntanlega haldið sig eystra í faraldrinum.

Ólíklegt að þeir beri með sér smit úr fjöllunum

Almannavarnir hafa undanfarna mánuði varað við mannaferðum milli landshluta nema brýna nauðsyn beri til. En sem kunnugt er ferðast jólasveinarnir á milli þegar þeir gefa börnum í skóinn. Rögnvaldur segir almannavarnir þó ekki hafa miklar áhyggjur af ferðunum en mikilvægt sé að jólasveinarnir fari gætilega.

„Við höfum svo sem ekki miklar áhyggjur af ferðum þeirra á milli landshluta þegar þeir koma til byggða því þeir hafa verið fjarri mannabyggðum svo lengi. En þegar þeir fara að fara hús úr húsi er mjög mikilvægt að þeir hugi að einstaklingsbundnum smitvörnum.

Það er nefnilega hætta á að smit geti borist, til dæmis á milli landshluta, með þessum hætti. Þetta á bara við um jólasveinanna heldur alla sem eru að fara á milli landshluta.“

Eiga að vera vel upplýstir

Jólasveinarnir eru oft frekar illa áttaðir þegar þeir koma til byggða og eiga það til að láta ófriðlega. Þeir eiga samt að vera upplýstir um þær samskiptareglur sem nú gilda í mannheimum.

„Við höfum náð að koma skilaboðum til þeirra og hvernig þeir eiga að bera sig að þegar þeir hefja störf núna í aðdraganda jóla. Flestir þeirra tóku skilaboðunum vel og skildu hvers vegna þeir þurfa að hugsa svona vel um sóttvarnir. Svo voru aðrir sem skildu þetta ekki alveg og þá leiðbeindum við þeim enn frekar í gegnum þær reglur og leiðbeiningar sem eru í gildi,“ segir Rögnvaldur.

Rannsóknir hafa verið gerðar á hegðun Covid-19 veirunnar og dreifingu hennar í ýmsum dýrategundum en eftir því sem næst verður hefur ekki verið rannsakað hvaða áhrif hún hefur á tröll, en jólasveinarnir eru af því kyni.

„Rannsóknir hafa sýnt að veira berst auðveldlega á milli manna en við erum ekki með staðfestar heimildir um hvort smit geti borist í tröll. Kannski er veiran of hrædd við tröll?“ segir Rögnvaldur.

Jólahellirinn sannkölluð jólakúla

Gildandi samkomutakmarkanir gera ráð fyrir að aðeins megi 10 manns koma saman í einu. Jólasveinarnir eru hins vegar 13 talsins og búa heima hjá foreldrum sínum, Grýlu og Leppalúða. Rögnvaldur segir það ekki vera vandamál.

„Á sumum heimilum búa fleiri en fjöldatakmörk segja til um og þá eru þeir sem þar eru innan sinnar kúlu - við getum í þessu samhengi meira að segja sagt jólakúlu. Þeir sem búa á heimili jólasveinanna þurfa samt sem áður að fara varlega í samskiptum við aðra. Ef þeir verða útsettir fyrir smiti þurfa þeir að fara í sóttkví í minnst 7 daga en hægt er að lesa sig betur til inni á  covid.is

Samkvæmt flestum heimildum eru jólasveinarnir og foreldrar þeirra nokkur hundruð ára gamlir. Þeir eru því langt yfir þeim mörkum sem miðað hefur verið við um að fólk yfir sextugu sé í áhættuhópum gagnvart veirunni. Þess vegna er enn mikilvægara að jólasveinarnir fari með gát.

„Aldur þeirra hefur aldrei verið staðfestur nákvæmlega en miðað við þær upplýsingar sem við höfum gætu þau verið í áhættuhópi.

Þá skiptir mestu máli að fara í einu og öllu hvað varðar einstaklingsbundnar sóttvarnir. Það er að þvo hendur oft og vel, sótthreinsa hendur oft. Þrífa sameiginlega snertifleti. Virða fjarlægðarmörk og nota grímu þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra á milli fólks. Ef einkenni gera vart við sig á að halda sig heima, hafa samband við sína heilsugæslu og panta tíma í sýnatöku,“ segir Rögnvaldur að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.