ME áfram í Gettu betur

Menntaskólinn á Egilsstöðum tryggði sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, með 24-22 sigri á liði Fjölbrautaskólans í Garðabæ. ME hafði yfirhöndina allan tímann þótt litlu munaði að illa færi í lokin.

 

gettu_betur_me_fg_web.jpgME var yfir eftir hraðaspurningar 15-13 og sá munur hélst í gegnum fyrstu vísbendingaspurningarnar. Garðbæingar minnkuðu muninn í eitt stig í fyrstu bjölluspurningar en þá hrukku ME-ingar í gang og náðu mest sex stiga forskoti.

Það höfðu þeir þegar tvær bjölluspurningar voru eftir. Garðbæingar tóku þær báðar og minnkuðu muninn í 24-20. Í svokallaðri spjaldaspurningu fengu Garðbæingar tvö stig en ME-ingar ekkert.

Þríþrautin gat því ráðið úrslitum, en þar fást þrjú stig eða ekkert. ME-ingar tóku bjölluna en svar þeirra var ekki fullnægjandi. Það kom ekki að sök því FG-ingar svöruðu spurningunni vitlaust og ME því komið áfram.

Liðið skipuðu Jóhann Atli Hafliðason, Beruneshreppi, Arnar Jón Guðmundsson, Geithellnahreppi og Hrólfur Eyjólfsson, Hlíðarhreppi.

Hrólfur vakti sérstaka athygli í gærkvöldi en það að hafa alist upp í Danmörku færði honum fjölda stiga. Hann svaraði einnig á dönsku og þegar spyrill þáttarins benti honum á að venjan væri að svara á íslensku spurði Hrólfur hvort hann gæti þá fengið orðabók.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.