ME býður til rannsóknaráðstefnu um hálendið norðan Vatnajökuls

Menntskælingar á Egilsstöðum hafa verið við rannsóknir á hálendinu norðan Vatnajökuls. Markmiðið var að gefa nemendum innsýn í vettvangsvinnu í náttúrufræðum. Á morgun, fimmtudag, kl. 15-17, halda nemendurnir ráðstefnu í hátíðarsal Menntaskólans. Þar kynna þeir verkefni sín og haldin verður uppskeruhátíð áfangans. Von er á stjórnendum íslenska hluta NEED-verkefnisins, frá Vatnajökulsþjóðgarði, auk þess sem von er á gestum víðar að.

helga_jna_jnsdttir_jarfrikennari.jpg

Menntaskólinn á Egilsstöðum býður í haust upp á áfangann UMH-103. Meginverkefni áfangans er þriggja daga rannsókna- og skoðunarferð um hálendið norðan Vatnajökuls og úrvinnsla úr þeim gögnum sem þau safna í ferðinni. Markmið áfangans er að kynna nemendum svæðið og gefa þeim smjörþefinn af vettvangsvinnu í náttúrufræðum, með áherslu á jarðfræði. Ferðin var farin í byrjun september. Jarðfræðikennari skólans, Helga Jóna Jónasdóttir sá um að skipuleggja áfangann. Tólf nemendur taka þátt í verkefninu.

Nemendum var skipt niður í fjóra þriggja manna hópa og fékk hver hópur ákveðin viðfangsefni til að vinna með í ferðinni.

Allir hóparnir tóku sýni, hver úr sinni jökulánni, til að vinna rannsóknir á svifaur. Nemendurnir þurrkuðu sýnin og vigtuðu. Út frá upplýsingum um rennsli ánna munu hóparnir áætla heildarframburð þeirra á ári og fjalla um rofhraða undir jöklinum.

Mælt var upp gjóskulagasnið og gjóskulögin verða greind út frá lýsingum á lögunum úr fræðiritum auk þess sem stuðst verður við þykknunarhraða jarðvegs.

Hver hópur fékk ákveðið svæði til sérstakrar umfjöllunar, s.s. megineldstöð, einn hópur fjallar um Snæfell, annar Kverkfjöll, sá þriðji Dyngjufjöll og sá fjórði Brúarjökul. Hver hópur ljósmyndaði sitt náttúrufyrirbæri og undirbýr að fjalla um það, sögu þess, eiginleika og eðli.

Hver hópur tók einnig að sér sérverkefni, s.s. að ljósmynda gosmyndanir, ljósmynda og greina jökulummerki, rannsaka vatn á svæðinu, og safna steinum, t.d. holufyllingum. Út frá holufyllingum má til að mynda áætla um rof Vatnajökuls.

  -Mynd:Helga Jóna Jónsdóttir jarðfræðikennari við ME/ÞR.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar