LME kynnir Konung Ljónanna: Aðsókn framar öllum vonum

 Image

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum hefur nú hafið sýningar á Konungi Ljónanna í leikstjórn Unnars Geirs Unnarssonar. Með aðalhlutverk fara meðal annars Ásbjörn Þorsteinsson, Helgi Týr Tumason, Sandra Sif Karlsdóttir og Telma Lind Sveinsdóttir. Leikritið, sem flestum er kunnugt úr safni Walt Disneys, fjallar um ljónsungan Simba sem lendir í ýmsum hrakningum á leið sinni í gegn um lífið. 

 

Námsárangur nemenda í forgang
Ríflega fimmtíu manna hópur kemur að sýningunni á einn eða annan máta. Við æfingarferlið hafði hópurinn frjálsan aðgang að Menningarhúsi Sláturhússins og segir leikstjóri það afar góðan kost. Þannig segist hann hafa getað lagað æfingarplanið að hópnum, en skólameistari lagði ríka áherslu á það að námsárangur nemenda væri alltaf í forgangi.

Leikið með ímyndunarafl áhorfenda
Leikmynd sýningarinnar er minimalísk. Með ljósum er leikmyndin gædd lífi á einfaldan en áhrifaríkan máta. „Það sem ég lagði upp með var traust til ímyndunarafls áhorfendanna,“ segir Unnar Geir. „Við þurfum ekki að segja eða sýna allt. Við erum ekki að þykjast vera í Afríku. Við erum í gamla, góða Valaskjálf til að segja ykkur sögu sem gerist í Afríku“.

Aðsókn framar öllum vonum
Að sögn formanns LME, Sigurðs Björns Teitssonar, hafa sýningar gengið eins og í sögu. Selst hefur upp á allar sýningar hingað til, og ekki útlit fyrir að það breytist. Grunnskólar af Austurlandi hafa fjölmennt á leikritið og aðsókn hefur farið fram úr björtustu vonum. Því hefur verið bætt við aukasýningu umfram venjulegan sýningartíma, en hún verður þriðjudaginn 20. mars næstkomandi.

Hefur komið víða við
Unnar Geir Unnarsson er enginn nýgræðingur á sviði leiklistar. Fyrir stuttu lauk hann leiklistarnámi sínu við The Academy of the Sicence of Acting and Directing í London, og útskrifaðist þar með Ba-Hons gráðu ásamt kennsluréttindum. Hann hefur bæði leikstýrt og leikið víðsvegar um heiminn, en segir leikstjórnina standa upp úr. Nefnir hann sérstaklega uppsetningu sína á Gilitrutt og Húsfreyjunni, en þar spann hann saman gömlu þjóðsögunni og íslenskum fimmundarsöng.

Kraftur einstaklingsins öflugur í listum
Unnar Geir hefur margt á prjónunum og stoppar ekki lengi á sama stað. Í kjölfar Konungs Ljónanna heldur hann aftur til London og leikstýrir þar barnasýningu ásamt því að leika í breskri stuttmynd. „Það sem hræðir mig mest og á sama tíma ögrar mér er óbrigðuleiki leiklistarheimsins,“ segir Unnar. „Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér, en á sama tíma hefur maður frelsi til að gera hvað sem er. Kraftur einstaklingsins er kannski hvergi eins öflugur og í listum. En frelsinu fylgir ábyrgð. Við vöndum til verks og vinnum ávalt að fullum heillindum hvert það verk sem við tökum okkur fyrir hendur“.

Austfirðinga þyrstir í leikhús
„Það væri stórkostlegt ef Austurland hefði upp á að bjóða alvöru leikhús til að taka á móti gestum,“ segir Unnar. „Ég er ekki að tala um Hörpu eða Hof, heldur fallegt sveitaleikhús með góðum staðalbúnaði fyrir hverskonar sviðslistir. Austfirðinga þyrstir í leikhús, það sannar aðsóknin á sýningu LME um þessar mundir“.

Frekari upplýsingar um sýninguna má finna á facebook viðburði hennar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.