Ljósmyndasýning um austfirskt mannlíf opnuð í Minjasafni Austurlands

minjasafn_ljosmyndasyning_mar11_web.jpgMyndir úr safni Önnu Ingólfsdóttur og Sigurðar Aðalsteinssonar eru uppistaðan í nýrri ljósmyndasýningu sem var opnuð í Minjasafni Austurlands í gær. Sýningin er samstarfsverkefni Minjasafnsins, Héraðsskjalasafns Austurlands og Ljósmyndasafns Austurlands en þema hennar er austfirskt mannlíf.

 

Fimmtán myndir eru á sýningunni, allar teknar á Austurlandi, flestar á síðasta áratug 20. aldar. Bæði Anna og Sigurður hafa um árabil verið fréttaritarar á Austurlandi en Sigurður er í hópi fréttaritara Agl.is. Sýningin verður opin fram í apríl og er aðgangur ókeypis.

Frá því í upphafi febrúar á þessu ári hefur á vegum Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Ljósmyndasafns Austurlands verið unnið að verkefni við skönnun, skráningu og frágang ljósmynda. Myndirnar á sýningunni sem opnar í dag er meðal þess myndefnis sem unnið hefur verið með á fyrsta mánuði verkefnisins.

Meginmarkmið þess er að gera safnkost Ljósmyndasafns Austurlands aðgengilegri fyrir áhugasama og er gert ráð fyrir að síðar verði einhver hluti safnsins gerður aðgengilegur á veraldarvefnum. Sá áfangi verkefnisins sem nú er í gangi nær þó ekki til slíkrar birtingar.

Samhliða sýningunni á jarðhæð Safnahússins opnar önnur ljósmyndasýning á vef Héraðsskjalasafns Austfirðinga (www.heraust.is). Myndirnar sem þar birtast eru alls 20 talsins og koma þær úr safni Sigurðar Blöndal á Hallormsstað. Efni myndanna er fjölbreytt en þar gefur m.a. að líta myndir frá Héraðsvökum og úr starfi Skógræktar ríksins. Flestar eru myndirnar teknar á Fljótsdalshéraði og er meginhluti þeirra tekin á 8. áratug 20. aldar.

Þriðja sýningin opnaði í Safnahúsinu fyrr í þessum mánuði. Bókasafn Héraðsbúa hefur sett upp sýningu um Einar H. Kvaran rithöfund. Einar var fæddur í Vallanesi á Völlum þann 6. desember 1859 og var einn af brautryðjendum raunsæisstefnu í íslenskum bókmenntum. Hann skrifaði skáldsögur, smásögur, ljóð og leikrit og má þar þekktast nefna Lénharð fógeta. Þessi sýning var fyrst sett upp í Þjóðarbókhlöðunni í desember 2009 í tilefni af því að að 150 ár voru liðin frá fæðingu Einars. Sýninguna má skoða í stiganum á leiðinni upp á bókasafn og rit hans liggja einnig þar frammi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.