Lið Egilsstaða meistari í spurningakeppni fermingarbarna þriðja árið í röð

spurningakeppni_fermingarbarna_egs_esk.jpg
Úrslit í spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi 2012-2013 fóru fram sunnudaginn 10. febrúar í Eskifjarðarkirkju og voru hluti af dagskrá æskulýðsmótsins í Fjarðabyggð um helgina. Keppnin var hörð og spennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu spurningu!

Það var lið Egilsstaðaprestakalls sem bar sigur úr býtum að lokum og var það skipað Ásu Þorsteinsdóttur, Eysteini Einarssyni og Guðmundi Davíðssyni. Í öðru sæti varð lið Hofsprestakalls, skipað Hugrúnu Ingólfsdóttur, Unnari S. Halldórssyni og Viktori Má Heiðarssyni. Í þriðja sæti varð lið Eskifjarðarkirkju sem þau Dagný Freyja Guðmundsdóttir, Jökull Logi Sigurbjarnarson og Sóley Arna Friðriksdóttir skipuðu. Fjögur lið unnu sér þátttökurétt í úrslitunum en sameiginlegt lið Heydala- og Djúpavogsprestakalla dró sig úr keppni vegna forfalla.

 Skálholtsútgáfan og ýmis fyrirtæki á Austurlandi gáfu verðlaun en sigurliðið ár hvert hlýtur einnig farandbikar til varðveislu í ár. Þetta er í þriðja sinn sem keppnin er haldin og hefur lið Egilsstaðakirkju/Egilsstaðaprestakalls farið með sigur af hólmi öll árin. Spyrill í ár var Hjalti Jón Sverrisson.

 Undanriðlar spurningakeppninnar fara að jafnaði fram í fermingarbúðum á Eiðum á haustin en úrslitakeppnin er svo haldin snemma á vorönn. Um helmingur spurninga er úr efni fermingarfræðslunnar en hinn helmingurinn tengist almennri þekkingu s.s. á íþróttum, landafræði og sjónvarpsefni. Það er Prestafélag Austurlands sem stendur að keppninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.