Leysa af hólmi úr sér gengnar vöggur

Kvenfélagskonur úr Nönnu í Neskaupstað færðu nýverið fæðingadeild Sjúkrahússins í Neskaupstað þrjár nýburavöggur að gjöf. Framkvæmdastjóri hjúkrunar segir kærkomið að fá nýju vöggurnar sem komi vagga sem hafi tekið á móti fjölda Austfirðinga.

„Nýju vöggurnar leysa af hólmi vöggur sem orðnar eru 30 ára gamlar. Sumar eru meira að segja orðnar götóttar.

Þess vegna er mikill munur að fá þessa gjöf. Vöggurnar eru þægilegar í notkun, henta nýburum og eru öruggar,“ segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA).

Styrkur til góðra málefna er eitt af meginverkefnum kvenfélagsins sem hefur um skeið safnað fyrir vöggunum. Í tilkynningu þakkar stjórn Nönnu styrktaraðilum stuðninginn. Við afhendingu vagganna var stjórn félagsins boðið í kaffi ásamt ljósmæðrum.

Um 80 börn fæðast á hverju ári á Sjúkrahúsinu í Neskaupstað. Fæðingardeildin þar sinnir einnig meðgönguvernd og eftirliti þannig að starfsemin er mikil. Nína segir að fyrir nokkru hafi verið kominn tími á að skipta gömlu vöggunum út.

„Það er dapurlegt að nota búnað sem er úr sér genginn. Það snertir ásýnd stofnunarinnar að búnaður og tæki séu í þokkalegu ástandi og veki traust.“

Stjórn Nönnu ásamt ljósmæðrum. Frá vinstri: Þorgerður Malmquist, Jónína Salný Guðmundsdóttir, Ingibjörg Birgisdóttir, Svala Guðmundsdóttir, Hrafnhildur L. Guðmundsdóttir, Dagný Gunnarsdóttir, Ólöf Þorgeirsdóttir, Sólveig Einarsdóttir og Helga M. Steinsson. Mynd: ÞÁ


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.