Langar aldrei heim aftur

Þrátt fyrir að hafa aðeins dvalið á Íslandi í fjóra mánuði hefur hin nítján ára gamla Saqar Yari tekið ákvörðun um að snúa ekki aftur til síns heimalands. Þótt hún sé aðeins ráðinn sem au-pair til eins árs er hún í raun að flýja heimaland sitt til að geta lifað eðlilegu lífi. Saqar er frá Íran.

Hörð mótmæli hafa verið í Íran síðustu viku, ekki síst meðal kvenna, eftir að ung kona lést á sjúkrahúsi eftir að hafa verið handtekin af siðgæðislögreglu landsins. Sakarefnið var að hún bar slæðu sína vitlaust. Saqar var þá nýkomin til Íslands en hún segir atvikið aðeins hafa verið kornið sem fyllti mælinn.

„Það er búin að vera sterk undiralda lengi í landinu og þar ekki síst hjá unga fólkinu. Við höfum aðgang að flestum samfélagsmiðlum og sjónvarpi og sjáum daglega hversu lífið er gott annars staðar í heiminum þar sem fólk er frjálst.

Það erum við ekki í Íran því við þurfum að lúta svo mörgum lögum og reglum að allt er þar erfitt og mest fyrir konur. Við þurfum að bera slæður þegar við förum út og þær verða að dekka ákveðið mikið svæði, við þurfum að hylla leiðtogana í skólunum, við megum helst ekki vera einar á ferð útivið, megum ekki nota hjól, það er bannað að dansa og okkar virði er bara helmingur á við karlmenn.“

Hún andvarpar við þessi orð og bætir við: „Þá er bara fátt eitt nefnt. Ég hef ekki verið hér lengi en það eru svo margir sem vita ekki hvað þeir hafa það gott hér á Íslandi og geta gert hluti sem við færum í fangelsi fyrir. Heima eru engir barir eða skemmtistaðir en okkur langar auðvitað að skemmta okkur eins og öðru ungu fólki og því eru partí í heimahúsum um allt land allar helgar.

Við megum ekki drekka áfengi en það brjóta það allir enda auðvelt að fá vín gegnum ýmsa aðila. En við megum ekki vera utandyra og eigum okkur engar málsbætur ef siðgæðislögreglan rekst á okkur. Þá gera þeir það sem þeir vilja við okkur og komast upp með allt.“

Annað sem fyrir brjóstið á almenningi í Íran segir Saqar vera spillingu hinna ríku og vel tengdu. „Við sjáum það daglega að fólk með góð tengsl eða peninga getur gert hvað sem það vill. Flestir ríkir Íranir eru löngu komnir til útlanda og búa þar góðu lífi og þú getur komist undan sektum og veseni með því að rétta fram seðla til þeirra sem ráða. Það er nánast ekkert í lagi heimafyrir,“ segir Saqar í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Fjölskyldan vill líka komast úr landinu

Ferlið til að koma til Íslands tók um ár og þótt það hafi tekið á þolinmæðina þá gekk allt upp að lokum. Hún er byrjuð að læra íslensku, sem er snúin en Saqar bendir á að tungumálið sé lykillinn að því að komast inn í samfélagið. Hún á sér drauma um að komast í nám hérlendis.

Hvert framhaldið er, er enn óvíst, landvistarleyfi hennar er til eins árs. En hún sér ekki fyrir sér að fara aftur til Írans, fjölskylda hennar hafi beinlínis brýnt fyrir henni við brottför að koma ekki aftur.

„Nánast það síðasta sem fólkið mitt sagði mér þegar ég var á leið til Íslands var að koma aldrei aftur heim væri þess nokkur kostur. Það ítreka þau við mig í hvert sinn sem ég heyri í þeim í síma eða á samfélagsmiðlum.

Sjálf eru þau að íhuga að flytjast burt úr landinu en mín fjölskylda öll er trúlaus að heita og eins og aðrir lifa þau í ótta hvern einasta dag. Þau vilja burt líka og ég veit að faðir minn hefur skoðað að reyna að flytja fjölskylduna alla frá landinu en það ekkert einfalt og kostar mikla peninga. Sjálf er ég farin að skoða hvaða möguleika ég hef þegar vistinni er lokið því hér vil ég vera áfram og eiga eðlilegt líf til frambúðar.“

Saqar hefur beitt sér í að vekja athygli á stöðunni í Íran og hélt í síðasta mánuði bingókvöld á Egilsstöðum til styrktar Íransdeildar Amnesty International. „Það allra besta við svona viðburði er að koma málefninu á framfæri og vekja fólk til umhugsunar. Það eru fjölmargir hér á Egilsstöðum sem ekki vissu af eða vita af þessum mótmælum sem hafa verið í gangi síðustu misserin og öll vitneskja fólks um hlutina er kostur.

Sjálf held ég að aðeins þannig, með utanaðkomandi pressu á írönsk stjórnvöld sé hægt að breyta hlutunum til betri vegar eða jafnvel koma klerkastjórninni frá svo íbúar þurfi ekki að búa undir þessari ofurstjórn sem nú situr og vill öllu ráða.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.