Karlhormónasýning opnar á morgun

Sýningin Testosterone verður opnuð hátíðisdaginn 17. júní kl. 17 í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þetta er samsýning fjögurra karlkyns listamanna; þeirra Eyjólfs Skúlasonar (höggmyndalist), Grétars Reynissonar (mynd- og höggmyndalist) Kormáks Mána Hafsteinssonar (ljósmyndir),  Skarphéðins G. Þórissonar (ljósmyndir) og Skarphéðins Þráinssonar (ljósmyndir).testosterone.jpg

Allir þessir listamenn vinna fullan vinnudag í fyrirtækjum á Fljótsdalshéraði, s.s. Rarik, Verkís, MS, Flytjanda og á Náttúrustofu Austurlands og sinna listsköpun í frítíma sínum. Engu að síður eru þeir allir afkastamiklir og ástríðan fyrir sköpunarstarfinu er sterk. Sumir þeirra eru að sýna opinberlega í fyrsta skipti. Sýningin er sölusýning.

Sýningin er blanda ljósmynda og högglistar þar sem íslenska landslagið, rekaviður, hreindýr og portret fylla hringlaga rýmið á efri hæð Sláturhússins.

Á opnuninni mun Berglind Ósk Guðgeirsdóttir, söngkona frá Reyðarfirði, syngja hinn guðdómlega óð til skaparans, sálm nr. 308. Þá verður boðið upp á hressandi drykki.

Í tilefni sýningarinnar er búið að hanna og prenta dagatal fyrir árið 2010 með myndum af sýningunni og verður dagatalið selt í Sláturhúsinu í sumar á kr. 500. Mun ágóði sölunnar renna til styrkja starfsemi Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og jafnframt listamannanna sjálfra.

 

Vonast listamennirnir til að sjá sem flesta í Sláturhúsinu – menningarsetri, á þjóðhátíðardeginum.

 

 

 

Sýningin, sem sett er upp að tilstuðlan Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, verður opin til 8. ágúst 2009, opið verður virka daga kl. 14-22 og um helgar kl. 14-18.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar