Janne álforstjóri: Ég er miklu meiri Íslendingur en Dani

janne_sigurdsson_web.jpg
Janne Sigurðsson, sem fyrr á árinu tók við stöðu forstjóra Alcoa á Íslandi eftir að hafa verið stýrt álverinu á Reyðarfirði, kann hvergi betur við sig en á Eskifirði þrátt fyrir að vera alin upp í Danmörku. Hingað flutti hún fyrst í ævintýraþrá til að vinna í fiski en varð samstundis ástfangin af svæðinu.

„Fyrstu vikurnar hugsaði ég: „Shit! Get ég verið á svona litlum stað í svo langan tíma?“ Fljótlega sá ég kostina – rólegt líf, sveitaböll og nágrannakærleik. Ég man eftir öllum gömlu kerlingunum í bænum, sem hjálpuðu okkur. Það buðu okkur allir velkomnar, það var aldrei þetta danska viðhorf til útlendinga,“ segir Janne í samtali við Álpappírinn sem fylgir nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Þar kynntist hún manninum sínum, Magnúsi Sigurðssyni, sem flutti með henni til Danmerkur. Í viðtalinu rifjar Janne upp fyrstu kynni af tengdafjölskyldunni sem bauð henni í mat.

„Þegar ég borðaði hjá þeim í fyrsta skipti og hún skellti sviðahaus á diskinn minn. Mér dauðbrá, en ég er þó þannig að ég borða það sem mér er boðið. En úff! Þarna tuggði Magnús tunguna og systir hans saug augun úr. Andskotinn bara! Þá hló tengdamamma rosalega, en ég held þetta hafi verið hálfgert próf – sem ég stóðst.“

Langaði alltaf að búa á Íslandi 
 
Magnús og Janne fluttu út til Danmerkur. Jann fór í nám, fyrst í svæðanuddi og síðan í stærðfræði og tölvuverkfræði. Hún réði sig síðan til hugbúnaðarfyrirtækisins KMD þar sem hún varð deildarstjóri en færði sig síðan yfir til Siemens símarisans þar sem hún leiddi hóp forritara.

Þar var hún í fimm ár áður en fjölskyldan flutti til Íslands. „Ég hef alltaf verið meiri Íslendingur en Magnús og hann meiri Dani en ég. Mig langaði alltaf að búa á Íslandi og tuðaði alltaf annað slagið um flutning til Eskifjarðar. Það tók mig fimmtán ár að ná því fram, en ég veit líka ástæðuna fyrir því. Áður var enga vinnu að fá hér, en þegar uppbyggingin fór af stað breyttist myndin. Við sáum að Magnús gæti sett á fót byggingarfyrirtæki, biðum ekki boðanna heldur stukkum af stað. Það er þó mjög ólíkt mér að segja upp góðri vinnu án þess að hafa neitt í hendi.” 
 
Við erum skuldbundin til að borga til baka 
 
Hún var ráðinn framkvæmdastjóri tölvuvinnslu Fjarðaáls og hefur unnið sig upp frá því. Hún segist þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu fyrirtækisins. 

„Við erum ekki aðeins að byggja risafyrirtæki frá grunni, heldur erum við að gera það á okkar heimasvæði. Alcoa gaf mér drauminn að fá að búa á Eskifirði eins og mig langaði svo mikið að gera. Það er einnig mikilvægt að muna að samfélagið veitti okkur þetta stórkostlega tækifæri til uppbyggingar, alveg eins og við gáfum því tækifæri til þess að stækka. Við erum því skuldbundin til þess að borga stanslaust til baka.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.