Ingunn Snædal: Ég er komin með malbiksofnæmi

copy_of_pict3852.jpg
Ingunn Snædal, skáld og kennari, segist ekki geta hugsað sér að flytja aftur til Reykjavíkur. Hún getur heldur ekki hugsað sér að halda áfram í stjórnmálum. Hún heldur áfram að skrifa og tekst í verkum sínum á við breyttar aðstæður í sínu nánasta umhverfi.

„Mér líst ágætlega á Austurland og Austfirðinga og hér er fullt af fólki að gera spennandi hluti,“ segir Ingunn í einlægu viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans. „Ég gæti allavega ekki hugsað mér að fara til Reykjavíkur aftur. Þegar maður hefur verið hér í nokkur ár myndar maður með sér malbiksofnæmi. Ég get ekki verið í Reykjavík nema í nokkra daga og þá verð ég að fara heim.“

Ingunn skapaði sér nafn í íslenskum bókmenntaheimi þegar hún fékk verðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina „Guðlausir menn, hugleiðingar um jökulvatn og ást.“ Síðan hefur hún haldið áfram að senda frá sér ljóðabækur. Hún segir að bækurnar fjalli um hana sjálfa, hennar eigið líf og reglulega blasi við henni ný viðfangsefni sem hún yrkir um.

„Núna eru allir vinir mínir fráskildir eða á minnsta kosti öðru hjónabandi, fólk er farið að deyja, t.d. foreldrar vina minna. Ég var í allt öðrum pakka fyrir tíu árum. En jú, jú, stundum fæ ég leið á sjálfri mér. Í hvert sinn sem ég sendi handrit til útgefanda liggur við að ég biðjist afsökunar á því. Ég býst alltaf við að fá það í hausinn aftur með skilaboðum frá útgefanda: Ingunn, það eru allir orðnir hundleiðir á þér!“

Ingunn hefur skoðanir á öllum mögulegum hlutum. Faðir hennar, Vilhjálmur Snædal bóndi á Skjöldólfsstöðum, er þekktur sjálfstæðismaður en sjálf valdi hún sér farveg innan Vinstri grænna í kringum síðustu þingkosningar. Hún komst fljótt að því að stjórnmálastarf á illa við hana en hún segist ekki sjá eftir þátttökunni.

 „Nei, nei, maður á að prófa allt að minnsta kosti einu sinni en þetta hentaði mér ekki og þessi eini landsfundur sem ég fór á var alveg drepleiðinlegur. Hvað er ég eiginlega að gera hérna? hugsaði ég!“ segir Ingunn sem þakkar fyrir að aðrir skuli gefa sér tíma í þessi störf.

„Ég er glöð að einhver skuli gera þetta. Stefáni Boga [Sveinssyni] vini mínum finnst ofboðslega gaman að vera á fundum en það deyr eitthvað inni í mér í hvert sinn sem ég sit stjórnmálafund. Ég vil miklu frekar gera eitthvað annað. 

Og varðandi stjórnmálaviðhorf föður míns gerði ég fyrir löngu greinarmun á gamaldags íhaldsstefnu og frjálshyggju. Þetta er ekki sami hluturinn. Sjálfstæðismenn af gamla skólanum líkjast þessum nýju ekki neitt og ég dáist að föður mínum fyrir það hvað hann er samkvæmur sjálfum sér. Hann trúir á þessa stefnu, fylgir henni og ég ber virðingu fyrir slíku fólki jafnvel þótt ég sé ekki sammála því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar