Hvetja konur til að sameinast og eiga góðar stundir

„Eins undarlega og það kann að hljóma kviknaði hugmyndin í spjalli nokkurra kvenna á balli í sumar,“ segir Sonja Einarsdóttir, varaformaður Kvennahreyfingar Eskifjarðar, sem formlega verður stofnuð á laugardaginn.


Kvennahreyfing Eskifjarðar boðar til „konukvölds“ í Dalshúsi á laugardagskvöldið. „Við vorum allar sammála um að eitthvað vantaði fyrir fólk að gera í samfélaginu og að allir væru að gera eitthvað í sínu horni í stað þess að sameinast við það. Við ákveðum því að stofna þetta félag, Kvennahreyfingu Eskifjarðar og erum við fimm í stjórn, en ásamt mér eru þær Dísa Björg Björgvinsdóttir, Sara Atladóttir, Heiður Dögg Vilhjálmsdóttir og Marta Magdalena Baginska,“ segir Sonja.

Sonja segir markmið félagsins í grófum dráttum vera að hvetja konur í samfélaginu til að sameinast og eiga góðar stundir saman. „Bæði þykir okkur það mikilvægt til að brúa bilið milli aldurshópa en einnig að þær konur sem eru aðfluttar og hafa kannski litla eða enga tengingu við samfélagið hafi hér vettvang til að tengjast hinum innfæddu.

Hlutverk okkar verður kannski að mestu að vera stuðningur við konur hér á Eskifirði sem langar að gera eitthvað skemmtilegt en vantar að koma því í gang en við sem stjórn munum kannski helst koma að stærri viðburðum. Við munum svo fara nánar yfir hugmyndir okkar á konukvöldinu sem er einskonar kynningarkvöld félagsins og opið öllum konum.“

Eitt og annað í bígerð
Sonja segir eitt og annað í bígerð. „Konukvöldið er okkar fyrsti viðburður en svo verðum við með annan í desember og svo í febrúar sem báðir verða kynntir síðar. Svo bara hvetjum við konur til þess að sameinast og gera eitthvað skemmtilegt saman. Okkur finnst líka ágætt að byrja bara og sjá hvert félagið stefnir og móta frekari áherslur eftir því, þó svo við séum auðvitað með ákveðnar hugmyndir og markmið fyrir það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar