Hreyfing og holl næring í skólum Fljótsdalshéraðs

Í síðasta mánuði kom út stöðumatsskýrsla fyrir Fljótsdalshérað í verkefninu „Allt hefur áhrif, einkum við sjálf!“. Skýrslan var unnin á vegum Lýðheilsustöðvar í samstarfi við sveitarfélög á Íslandi. Verkefnið hefur það að markmiði að stuðla að heilbrigðum lífsháttum barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á aukna hreyfingu og bætt mataræði. Með því er meðal annars verið að bregðast við þeirri þróun að kyrrseta er að aukast og neysluvenjur að breytast. Efni skýrslunnar varpar ljósi á stöðu helstu þátta sem varða aðstæður, starf og framboð hreyfingar og hollrar næringar í leik- og grunnskólum Fljótdalshéraðs. Skýrslan sýnir að á þessum stöðum er unnið mikið og gott starf en einnig að ýmislegt má gera betur.

fljotsdalsherad_logo_vefur.jpg

Fljótsdalshérað hefur verið þátttakandi í verkefninu frá upphafi þess, eða frá árinu 2005. Við upphaf verkefnisins var staðan metin á hverjum stað. Kannanir voru lagðar fyrir grunn- og leikskólastjóra, börn í 6., 8. og 10. bekk og foreldra barna í 6. bekk. Sem liður í mati verkefnisins var könnun lögð aftur fyrir leik- og grunnskólastjóra vorið 2007 og 2009. Til að meta þörf fyrir aðgerðir og árangur verkefnisins á Fljótsdalshéraði hafa niðurstöður kannananna verið greindar og þær nýttar í stefnumótunar- og aðgerðaáætlunarvinnu sveitarfélagsins, sem finna má hér. Í skýrslunni sem út kom í október síðast liðinn, eru birtar helstu niðurstöður úr svörum leik- og grunnskóla á Fljótsdalshéraði frá árunum 2005, 2007 og 2009 og þær skoðaðar með tilliti til þess hvað eða hvort eitthvað hafi áunnist á þessu fjögurra ára tímabili.

 

Í kafla um samantekt á niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að á Fljótsdalshéraði hefur verið unnið gott starf í leikskólum og grunnskólum við að skapa aðstöðu til heilsusamlegra lífshátta barna með áherslu á hreyfingu og næringu. Í mörgum skólastofnunum á Fljótsdalhéraði hefur verið unnin góð stefna í grunnskólum en heldur má gera betur í leikskólum. Stefna skóla og aðgerðir fara þó ekki alltaf saman og oft er unnið mjög gott starf í skólum þótt ekki sé fjallað um það í stefnu eða skólanámsskrá.

 

Hvað leikskólana varðar mætti í sumum þeirra sjá til þess að í stundaskrá væri meiri hreyfing með skipulögðum hreyfistundum. Til að bæta þetta þarf að bæta aðgengi að aðstöðu, þannig að allir leikskólarnir hefðu aðgang að íþróttasal. Í öllum grunnskólanna er

lögð áhersla á að hvetja nemendur til hreyfingar, í viðbót við hefðbundna íþróttatíma, í frímínútum og á frístundaheimilum.

 

Matur og drykkur í leik- og grunnskólum virðist að miklu leyti vera í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar. Fiskur er í boði í öllum skólastofnunum tvisvar í viku eða oftar. Verulega hefur dregið úr framboði á unnum kjötvörum í grunnskólum

sveitarfélagsins á tímabilinu 2007 til 2009 og slík vara horfið úr leikskólum. Framboð á grænmeti og ávöxtum í leikskólum er í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar. Framboð á hráu og soðnu eða steiktu grænmeti í grunnskólum hefur aukist. Í öllum

grunnskólum er börnum boðnir ávextir í morgunhléi.

 

Enginn grunnskóli býður upp á gosdrykki og sælgæti og einnig hefur dregið úr öðrum sætum vörum innan grunnskólanna. Í langflestum leikskólum er framboði af sætindum stillt í hóf. Dregið hefur úr framboði á nýmjólk í grunnskólum en gera má betur í leikskólum þar sem börn eru eldri en tveggja ára.

Skýrsluna má sjá í heild á vef Fljótsdalshéraðs, www.fljótsdalsherad.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar