„Hlátur, grátur, gnístan tanna og hamingja á plastfati" : LME frumsýnir söngleik

Image 

Leikfélag LME frumsýnir á föstudaginn söngleikinn „Ástin er diskó, lífið er pönk“ eftir Hallgrím Helgason. Leikstjórn er í höndum Hrafndísar Báru Einarsdóttur.

Sögusviðið er Reykjavík í kringum 1980 þar sem diskóið er allsráðandi og pönkið er að skríða upp á yfirborðið með tilheyrandi viðbjóð og geðveiki. Fólk er dregið í dilka eftir tónlistar- og fatasmekk. Eilíf barátta ríkir milli þessa tveggja ólíku heima; diskóplastheimsins og pönkgreddunnar. Undir diskófroðunni má þó greina þjóðfélagsátök þar sem tekist er á um þýðingarmeiri hluti en axlapúða og öryggisnælur. 

Þegar diskódrottningin Rósa, nýkrýnd Ungfrú Hollywood, hittir fyrir pönknaglann Nonna virðast þau í fyrstu eiga fátt sameiginlegt. Eitthvert einkennilegt aðdráttarafl dregur þau þó hvort að öðru. Munu heildsaladóttirin fótafima og hinn hugumstóri forsöngvari Neysluboltanna ná að sætta sín ólíku sjónarmið?


Um 60 manns koma að sýningunni
Stór hópur kemur að sýningunni og telur hann tæplega 60 manns í heildina. Með hlutverk pönkkóngsins Nonna fer Hákon Freyr Aðalsteinsson. Á lokaspretti æfingatímabilsins komu upp veikindi í leikarahópnum og þurfti að þjálfa upp nýja aðalleikonu. Með hlutverk diskódrottningarinnar Rósu fer því Vigdís Diljá Óskarsdóttir og/eða Dagbjört Guðmundsdóttir. Í sýningunni bregður einnig fyrir pönkhljómsveitinni Neysluboltunum, diskódívum, þremur rónum, umboðsmanni og misgáfulegum pönkurum svo eitthvað sé nefnt.

Hópurinn hefur fengið nokkra utanaðkomandi aðstoð, og ber þar hæst Þorstein Óla Sveinsson. Hann hefur lagt mikla og óeigingjarna vinnu við gerð leikmyndar, sem að sögn leikstjóra er afar glæsileg.


Leikstjórinn er tilfinningahrúgald
Aðspurð að því hvernig æfingar hafi gengið er Hrafndís fljót til svara. „Þetta hefur verið hlátur, grátur, gnístan tanna og hamingja á plastfati. Með öðrum orðum: leikstjórinn er algjört tilfinningahrúgald“.

Sýningin er frumraun Hrafndísar sem leikstjóra og segir hún það viðeigandi. „Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að spreyta mig fyrst hér heima. Þessa dagana eru 9 ár síðan ég hætti í ME og fór af stað í ferðalag. Það má segja að ég sé komin hringinn“.   


Handritið fannst í ruslinu
Þegar Hrafndís, ásamt Helgu Rún Steinarsdóttur formanni LME, voru að hugleiða hvaða verk leikfélagið skyldi setja upp, fannst handritið að sýningunni í „ruslinu inn á nemendaráðsskrifstofu“. Helga Rún var ákaflega hrifin af verkinu, en segist Hrafndís hafa verið hrædd við að taka svo stórt verkefni að sér í frumraun sinni sem leikstjóri. Hún féllst þó á það að lokum.

„Hallgrímur Helgason er af Héraði og þótti okkur verkið þess vegna tilvalið. Auk þess er hann frændi minn. Ég hef verið dugleg við að skipa í hlutverk innan fjölskyldunnar. Ég er með valdahroka á háu stigi“.


Gefandi að vinna með metnaðarfullu fólki
„Þetta er búið að vera forvitnilegur tími,“ segir Hrafndís. „Á sama tíma og ég er að kenna þeim er ég að læra helling sjálf. Það er virkilega gefandi að vinna með hóp af metnaðarfullum einstaklingum á borð við þá sem eru að taka þátt í þessari uppsetningu“.


Frumsýnt verður föstudaginn 4. mars í Valaskjálf og hefst sýning klukkan 20:00. Nánari upplýsingar um sýningartíma má finna á facebook síðu LME: http://www.facebook.com/home.php?#!/event.php?eid=153396864713551 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.