Hjólaði úr Fellabæ og gekk á Snæfell

steini_vadbrekkur_snaefell_hjol_web.jpg
Aðalsteinn Aðalsteinsson yngri frá Vaðbrekku, gekk á Snæfell síðasta sumar með stórfjölskyldunni. Það væri vart í frásögu færandi, nema fyrir það að áður en hann gekk á fjallið ásamt foreldrum sínum 75 og 80 ára, systkinum, tengdafólki og afkomendum þeirra, hjólaði hann 90 kílómetra leið úr Fellabæ inn í Snæfellsskála.

Að sögn Aðalsteins sem að jafnaði er kallaður Steini, hafði hann hugsað um þennan möguleika í um hálfan mánuð fyrir fjallgönguna og segist hafa búið sig sérstaklega undir hjólatúrinn með því að hjóla ekkert í viku og hvíla sig fyrir átökin.

Steini segist hafa verið í góðu formi en hann var búinn að hjóla allan veturinn áður og sumarið fram að ferðinni „út um allar trissur umhverfis Fellabæ“ um 50 til 100 kílómetra á viku.

steini_vadbrekkur_snaefell_2012_web.jpg
Sárara fyrir sitjandann að hjóla á malarvegi

Hann var því tilbúinn í stóra daginn. „Ég vaknaði klukkan tvö um nóttina. Hafði á sofið í fjóra klukkutíma og lagði af stað klukkan þrjú eftir að hafa borðað einn disk af súrmjólk, brauðsneiðar, smjör, kjötálegg, epli og drakk mjólk og vatn með.

Veður var ágætt, logn inn Fell, ég fékk svo mótvind efst í Bessastaðafjallinu, hliðarvindur var inn Fljótsdalsheiðina, mótvindur upp með Laugará og aftur logn inn á Snæfellsvegi. Það var frekar kalt á leiðinni, dumbungur inn Fljótsdalsheiði, þurrt en birti ekki til fyrr en upp með Laugaránni. Færðin var ágæt en Snæfellsvegurinn var mjög grófur. Það er þyngra að hjóla á malarvegi og sárara fyrir afturendann.

Ég stoppaði fimm sinnum á leiðinni og hafði í nesti, brauð með smjöri og kjöti, Caramel súkkulaði og drakk hálfan lítra af Pepsi og um tvo lítra af vatni á leiðinni inneftir“, segir Steini“.

vadbrekka_snaefell_steinisefur_web.jpg
Þreyttari við komuna í skálann en á toppnum

Steini var rúmlega sjö klukkutíma að hjóla þessa 90 kílómetra inn í Snæfellsskála, kominn inneftir klukkan rúmlega tíu um morguninn.

„Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki hafa verið orðinn allþreyttur þegar ég kom inn í skála, en ástandið var nokkuð gott nema afturendinn var sár. Ég fékk góða hvíld þar innfrá áður en lagt var í fjallgönguna.

Síðan var lagt í hann á Snæfellið upp úr klukkan ellefu, við vorum fimm klukkutíma að ganga upp á topp, það var ekki erfitt, róleg og þægileg ganga.

Það var svo skrýtið að ég var þreyttari þegar ég kom á hjólinu að Snæfellsskála heldur en þegar ég var kominn upp á topp Snæfells, líklega vegna þess hve skynsamlega var gengið upp fjallið.

Niðurferðin seig ekki verulega í, ég var tiltölulega sprækur hún tók fjórar klukkustundir, við vorum komin niður í Snæfellskála um klukkan hálf níu um kvöldið.“

vadbrekkufolk_snaefell_2012_web.jpg
Fékk far til baka

Steini hjólaði samt ekki aftur til baka. „Ég fékk far með Skúla Júlíussyni leiðsögumanni okkar í fjallgöngunni (það hefði nú einhvern tíman þótt saga til næsta bæjar að Vaðbrekkumenn þyrftu leiðsögumann til að ganga á Snæfell) heim í Fellabæinn, lagði mig einhverja stund í bílnum.

Þegar ég kom heim fór ég í sturtu borðaði smávegis, var hálf lystarlaus og sofnaði svo vært rígmontinn um klukkan hálf ellefu. Þá var liðin tuttugu og hálf klukkustund frá því ég vaknaði nóttina áður, til að búa mig af stað.

Ég steinsvaf til klukkan hálf átta um morguninn og mætti til vinnu klukkan átta. Ég var ekki beint með harðsperrur en hálfgerða þreytuverki í öllum skrokknum daginn eftir ferðina.“
 
Myndir: Sigurður Aðalsteinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.