Hjúkrunarheimili rís á Eskfirði í sumar

Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði, sem lengi hafa verið í undirbúningi, hefjast nú í sumar. Hjúkrunarheimilið rís á lóðinni Dalbraut 1 en samningar hafa tekist við Samkaup um að bærinn leysi lóðina og mannvirki á henni til sín. Gert er ráð fyrir að byggð verði 20 ný hjúkrunarrými og komi þau í stað núverandi Hulduhlíðar. Almenn hjúkrunarrými verða 10 og 8 hjúkrunarrými og 2 hvíldarrými verða fyrir heilabilaða. Hjúkrunarheimili eru byggð á kostnað og ábyrgð ríkisins að 85%

en 15% kostnaðar greiðir sveitarfélagið. Rekstrarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Gott samstarf hefur verið við félags- og tryggingamálaráðuneytið um lóðamálin en sveitarfélagið leggur til lóð án gatnagerðargjalda.

42-21327279.jpg

Í fréttabréfi frá Helgu Jónsdóttur, bæjarstýru Fjarðabyggðar, til íbúa segir að lóðin Dalbraut 1 hafi ekki verið sú fyrsta sem horft var til. ,,Samningsumleitanir við Frjálsa fjárfestingabankann um lóðirnar Grjótárgötu 2, Útkaupstaðagötu 2 og Strandgötu 39A eða svokallaðan Eddu-Borgareit báru ekki árangur. Þá var kannað hvort koma mætti byggingunum fyrir á lóðunum Strandgötu 30B og 34 . Sá kostur hefði falið í sér miklar uppfyllingar og kaup á mannvirkjum til niðurrifs. Hann reyndist því of kostnaðarsamur. Þriðji kosturinn sem kom til álita var innan við núverandi byggð í Eskifjarðardal. Sú lóð þótti síðri en Dalbrautin m.a. vegna þess að hún er í útjaðri byggðarinnar og nærri þjóðvegi að göngum sem gerð verða milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.

 

Dalbraut 1 er við innkeyrsluna í Eskifjörð þar sem kirkju- og menningarmiðstöðin og Bleiksárhlíðin blasa við og sundlaugin er á hina hönd. Gert er ráð fyrir að húsið rísi sunnarlega í lóðinni, þ.e. nærri sjó. Mannvirkjastjóri Fjarðabyggðar, Jóhann Eðvald Benediktsson, ber ábyrgð á verkefninu með Framkvæmdasýslu ríkisins. Jafnframt munu Svanbjörg Pálsdóttir, formaður öldrunarþjónustunefndar, og forsvarsmenn Hulduhlíðar og Uppsala, Árni Helgason og Ósk Bragadóttir, vinna að þarfagreiningu og ráðgjöf.

 

Hönnunarsamkeppni verður auglýst í aprílmánuði og að henni lokinni verður önnur hönnun boðin út. Gert er ráð fyrir að hönnunarvinnu ljúki í haust og í framhaldi af því verði verkið boðið út. Samhliða hönnun hússins hefjast jarðvegsframkvæmdir og undirbúningur á lóðinni. Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki árið 2012.

fjaragbyggarlg.jpg

Ástæða er til að fagna því að ný og betri aðstaða skapast til að sinna öldruðum og heilabiluðum í Fjarðabyggð. Einnig felur þessi framkvæmd í sér mikla andlitslyftingu á áberandi stað á Eskifirði. Þá má enn fremur geta þess að í tengslum við þessa samninga áforma Samkaup umbætur á húsi og umhverfi verslunarinnar við Strandgötu nú í sumar. Með tilliti til atvinnuástands verða þessar framkvæmdir á ákaflega heppilegum tíma. Ég leyfi mér því að óska Eskfirðingum og öðrum íbúum Fjarðabyggðar til hamingju með að samningar eru í höfn,“ segir í fréttabréfi bæjarstýru.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar