Helgin: „Þarf ekki D-vítamín eftir þessa tónleika“

Sitthvað er um að vera um helgina á Austurlandi og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

 Klukkan 16:00 á laugardaginn verða tónleikar í kirkjumiðstöðinni á Eskifirði með Söngfuglum úr Eyjafirði, Kirkjukór Laugalandsprestakalls. Verkið Fuglakabarett er eftir þá Daníel Þorsteinsson, norðfirskan píanóleikara og tónsmið og Hjörleif Hjartarson, úr Hundi í óskilum.

Daníel lofar góðri skemmtun á morgun. „Verkið heitir Fuglakabarett og verk fyrir kór og hljómsveit um farfugla og staðfugla. Þetta er mikil gleði og mikill húmor. Það kennir ýmissra grasa, þetta er í raun og veru hvorki stílað frekar á börn né fullorðna. Þetta er ekkert of langt heldur. Það hafa bara allir gaman. Þarna eru valsar og sömbur, þungarokksballöður, lög í íslenskum fimmundarstíl og allt þar á milli,“ segir Daníel.

Daníel segir verkið hafa fengið góða dóma áhorfenda en sjón sé sögu ríkari. „Ég mæli með því að fólk mæti, þetta er alveg ekta verk svona fyrir sumarbyrjun. Það var kona sem sagði einu sinni þegar við vorum búin að hún gæti nú alveg sleppt því að taka d-vítamíið sitt eftir þessa tónleika.“


Tónleikar, tölt, tjútt og umhverfisvæn trú

Í kvöld verða tónleikar í Beituskúrnum á Neskaupsstað með pönkhljómsveitinni DDT skordýraeitur. Í auglýsingu segir að búast meigi við miklu fjöri og gríðarlega þéttum tónleikum enda sé sveitin í fantaformi eftir að hafa æft stíft síðan hún lék síðast á pönkhátíðinni Orientu Im Culus.

Á laugardag verður Kvennatölt Hestamannafélagsins Blæs haldið á Neskaupsstað. En kvennatöltið er minningarmót um Halldóru Jónsdóttur. Keppt er í tveimur fokkum, minna vanar og meira vanar keppniskonur. Mótið hefst klukkan 14:00 og nánari upplýsingar má nálgast á facebook síðu Blæs.

Á sunnudag klukkan 10:30 verður svo kölluð „græn messa“ haldin í annað sinn í Egilsstaðakirkju. Messan er helguð náttúruvernd og umhverfismálum í tali og tónum í tilefni af nýliðnum Degi jarðar, vorkomunni og þeim áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ræðumaður verður Kristbjörg Mekkín Helgadóttir, nemi í ME sem situr í ungmennaráði Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Þá verður aldeilis hægt að tjútta um helgina en tveir dansleikir verða á Egilsstöðum. Hljómsveitin Legó leikur fyrir danski á Aski í kvöld en Magni og Hvanndalsbræður halda uppi stuðinu á Feita fílnum á laugardagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar