Helgin: „Þetta er nú einu sinni háskóli allra landsmanna“

„Að aka um með vísindasýningu er svolítið eins og að túra með hljómsveit, við sköpum okkar eigin veröld á hverjum stað sem gestir ganga inní sem svo hverfur aftur,“ segir Guðrún Bachmann lestarstjóri Háskólalestar Háskóla Íslands, en Egilsstaðaskóli verður vettvangur síðustu heimsóknar Háskólalestar Háskóla Íslands í maímánuði þetta árið.


Háskólalestin var fyrst sett á laggirnar á aldarafmælisári Háskólans 2011 og í fréttatilkynningu segir að áherslan hafi frá upphafi verið að kynna vísindi á lifandi, skemmtilegan og fjölbreyttan hátt og glæða þannig vísindaáhuga víða um land, ekki síst hjá ungu fólki.

Á morgun munu nemendur þriggja skóla á Austurlandi sækja námskeið í Háskólalestinni um ólíkar hliðar vísindanna, en alls munu um 150 nemendur úr 7.-10. bekk skólans, Seyðisfjarðarfjarðarskóla og Brúarásskóla á Héraði sækja námskeið úr Háskóla unga fólksins.

„Við viljum jafna tækifærin“
„Verkefnið er í rauninni tvískipt, en að baki þeim hluta sem við vinnum með skólunum liggur mikill undurbúningur, hver nemandi fær að velja úr tíu mismunandi námskeiðum. Með því erum við að færa grunnskólabörnum á landsbyggðinni sömu námskeið og kennd eru í Háskóla unga fólksins í Reykjavík, við viljum jafna tækifærin. Þó svo að markmið sé alls ekki að vera að framleiða framtíðar háskólanema opnar þetta engu að síður veröld sem kannski einhverja langar að kynna sér betur, það er gaman að þekkja og vita,“ segir Guðrún.

Lestin er öllum opin á morgun
Á laugardaginn verður svo slegið upp fjörugri vísindaveislu í Egilsstaðaskóla fyrir alla Austfirðinga milli klukkan 12:00 og 16:00 og aðgangur er ókeypis.

„Þá verður fullt af allskonar dóti, tækjum og tólum fyrir allan aldur. Þeir nemendur sem hafa verið daginn áður draga fjölskyldu sína iðulega með sér daginn eftir, oft þrír ættliðir saman.

Þetta er sjöunda árið okkar, alls höfum við farið á 40 staði og við þekkjum ekkert annað en mikla gleði. Það kemur fólki oft á óvart upp á hvað við erum að bjóða, en fæstir vita við hverju á að búast. Þetta er nú einu sinni háskóli allra landsmanna, okkar þjóðarskóli, þannig að þetta verkefni er okkur ánægjan ein.“


Sýningin Farfuglar opnar með fyrirlestri
Nóg verður einnig um að vera á Seyðisfirði um helgina en á laugardaginn opnar sýningin Farfuglar með fyrirlestri eftir listamennina Hannimari Jokinen og Joe Sam-Essandoh um yfirstandandi rannsókn þeirra á þrælahaldi sem tengir sig yfir til Hans Jónatan á Djúpavogi á nítjándu öld.

Þrælaiðnaðurinn teygði sig þvert yfir Atlantshaf og tengdi Danmörku, Hamborg-Altona, Karíbísku eyjarnar, Vestur-Afríku og Ísland. Meðan þau hafa dvalið í Skaftfelli hafa þau skoðað óvenjulegt líf Hans Jónatans, sem strauk úr þrælahaldi og settist að á Austurlandi árið 1802. Hann eignaðist fjölskyldu á Djúpavogi og bjó þar sem heiðvirður borgari, verslaði með sykur, kaffi og þar fram eftir götunum. Í verkum sínum minnast listamennirnir ferðalaga Hans um heiminn þveran og endilangan og arfleifðar. Að fyrirlestrinum loknum verður fluttur stuttur gjörningur og boðið upp á léttar veitingar.

 

Leik Hattar og Hugins frestað

Leik Hattar og Hugins í annarri deild karla sem leika átti á Fellavelli í dag hefur verið frestað af óviðráðanlegum orsökum. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.