Helgin: Stál og Bræla

Helgin sem margir landsmenn hafa vanist því að kalla Bræðsluhelgina er að renna upp og í þetta sinn án Bræðslunnar. En þrátt fyrir það er nóg um að vera á svæðinu.

Vonandi er það tónlistarþyrstum Borgfirðingum og gestum nokkur sárabót að í stað Bræðslunnar verður tónleikaröðin Brælan í Fjarðarborg. Á fimmtudag riðu Magni, Einar Þór, Pétur Örn & The Hafthors á vaðið með óskalagatónleika. Á föstudag verða það þau Aldís Fjóla og Friðrik Jónsson, Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn og Jónas Sigurðsson og Ómar Guðjónsson sem stíga á sviðið, sem þau þekkja öll afar vel. Á laugardaginn munu síðan Jónas og Ómar koma fram aftur og auk þeirra þau Bríet ásamt Kristófer & Rubin og Sváfnir Sig ásamt Pálma Sigurhjartarsyni.

Allir tónleikar Brælunnar hefjast kl. 19:30 og húsið opnar 19:00 en röng tímasetning kemur fram á miðum af miðasölusíðunni tix.is.

 

Stálsmiðjan Neskaupstað

Stálsmiðjan er lítil grasrótarhátíð, eins konar tilraunarrými listanna, sem fram fer í Neskaupstað yfir helgina. Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin en síðastliðin tvö ár hefur Stálsmiðjan verið haldin samhliða Eistnaflugi og er stefnt að því áfram í framtíðinni. Í þetta sinn er hátíðin hluti af listahátíðinni Innsævi, hún er haldin í gömlu Stálsmiðjunni í Neskaupstað og á neðri hæð gömlu netagerðarinnar.

Allir viðburðir hátíðarinnar eru fríir og allir eru velkomnir. Í gömlu netagerðinni er opið matarboð á föstudag kl. 17 þar sem að allir eru velkomnir en gestir eru beðnir að koma með sína eigin skál, glas og skeið, til þess að sporna við plastkaupum þar verður boðið upp á tónlistaratriði og tvö gjörninga frá kl. 18. Í Stálsmiðjunni verða í framhaldinu tónleikar milli frá kl. 20-23 og á miðnætti verður brenna leidd af Maríu Jóngerð Gunnlaugsdóttur.

Á laugardag verður laufabrauðssmiðja í gömlu netagerðinni frá kl. 12-14:40 og í framhaldinu opnun myndlistarsýningar í Stálsmiðjunni kl. 15 þar sem steikt verður laufabrauð. Þar verða líka tónleikar og gjörningar frá 16-23.

 

GÓSS, Bjartmar og Gummi Gísla á ferð um Austurland

Hljómsveitin GÓSS fagnar sumrinu líkt og fyrri sumur með tónleikaferð um landið í júlí og nú um helgina verður farið um Austurland. Leikar hefjast í Herðubreið á Seyðisfirði á föstudg kl. 21, en þetta er í fyrsta sinn tríóið kemur við á Seyðisfirði. Á laugardag mun sveitin spila í Beituskúrnum í Neskaupstað kl. 20:30 og síðan á Havarí í Berufirði á sunnudag kl. 20.

Austfirðingurinn Bjartmar Guðlaugsson kemur heim á fornar slóðir um helgina og leikur á tónleikum í Valaskjálf á Egilsstöðum á laugardag kl. 21. Þar mun hann fara yfir ferillinn, segja sögurnar og flytja lögin og ljóðin sem gert hafa hann af einum af okkar ástsælustu tónlistarmönnum.

Norðfirðingurinn Guðmundur Rafnkell Gíslason hefur verið á stuttri tónleikaferð ásamt hljómsveit um norðausturhorn landsins. Hann lék í vikunni á Seyðisfirði og Vopnafirði en um helgina mun hann halda tónleika á Þórshöfn á laugardag kl. 21 og á Bakkafirði á sunnudag, einnig kl. 21. Á tónleikunum mun hann leika ýmis lög, bæði frá ferli sínum sem söngvari hljómsveitarinnar SúEllen og einnig af sólóplötum sínum, en hans nýjasta plata, Sameinaðar sálir, kom út á árinu og vakti mikla og jákvæða athygli.

 

Góðar gönguferðir

Landverðir í Snæfelli bjóða um þessar mundir upp á létta morgungöngu frá Snæfellsskála alla morgna klukkan 9. Gengið er í nágrenni skálans, upp að Bergskjá og tekur gangan rúma klukkustund. Á leiðinni fræðir landvörður um lífríki og jarðfræði svæðisins. Þá er einnig í boði að hafa samband í síma 842-4367 ef vilji er fyrir göngu á öðrum tíma. 

Ferðafélag Fjarðamanna mun á laugardag gangast fyrir göngu yfir Stuðlaheiði, sem er á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Mæting er kl. 10 á bílastæðinu við Fáskrúðsfjarðargöngin í Fáskrúðsfirði og þar verður sameinast í bíla. Gengið verður úr Reyðarfirði og yfir til Fáskrúðsfjarðar. Kristinn Þorsteinsson fer með fararstjórn og þátttaka er ókeypis. Erfiðleikastig göngunnar er metið þrír skór, sem þýðir nokkuð löng leið, gengið í fjalllendi og getur þurft að vaða ár. Þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfun.

 

Kvikmyndir í Sláturhúsinu og Lotta á Reyðarfirði

Seinustu 4 vikur hafa unglingar á Fljótsdalshéraði setið grunnnámskeið í kvikmyndagerð þar sem þau lærðu grunninn að því að skrifa handrit, taka upp, klippa, leikstýra, framleiða, hljóðvinna og margt fleira. Nú er komið að því að sýna afraksturinn og á föstudag kl. 20 verða sýndar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum þrjár stuttmyndir og eitt tónlistarmyndband, allt eftir krakkana sjálfa.

Allir eru velkomnir til að sjá og heyra afrakstur þessa efnilega kvikmyndargerðarfólks.

Leikhópurinn Lotta hefur undanfarna daga verið á ferð um Austurland, en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Lotta hefur sérhæft sig í sýningum utandyra á sumrin og á föstudag er síðasti séns í bili fyrir Austfirðinga að sjá glænýjan fjölskyldusöngleik, Bakkabræður, en sýnt verður á Reyðarfirði kl. 18.

Að venju er fjörið í fyrirrúmi, mikið af gríni, glensi og skemmtilegum lögum þó undirtónninn sé alvarlegur og boðskapurinn fallegur. Sýningin er hugsuð fyrir alla aldurshópa og eiga þar fullorðnir jafnt sem börn að geta skemmt sér saman. Þar sem sýningarnar eru utandyra er um að gera að klæða sig eftir veðri, pakka smá nesti, hella vatni í brúsa og halda svo á vit ævintýranna með Lottu.

Kaupstaðarafmæli Seyðisfjarðar

Seyðfirðingar hafa undanfarna daga verið að halda upp á 125 ára kaupstaðarafmæli og lýkur þeim hátíðahöldum nú um helgina. Á laugardag kl. 10 verður ræst í svonefnt flugvallarhlaup en þar eru tvær vegalengdir í boði, 8.5 og 10 km. Skráning í hlaupið fer fram gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Sama dag kl. 18 er Smiðjuhátíð Tækniminjasafnsins haldin með kótilettukvöldi og bryggjuballi. Allur ágóði rennur til björgunarsveitarinnar Ísólfs.

Á sunnudag kl. 16 er síðan formleg opnun bíósalarins í Herðubreið. Þar verður boðið upp á léttar veitingar og sýndar stuttmyndir frá Seyðisfirði. Kl. 20 verður síðan bíósýning fyrir alla fjölskylduna.

 

Listahátíðin Stálsmiðjan er haldin í þriðja sinn um helgina. Mynd: Stálsmiðjan á Facebook

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.