Helgin: Sérstakar hljómasamsetningar og ljúfar melódíur í Egilsstaðakirkju

Eitt og annað verður um að vera á austurlandi um helgina. Meðal annars verður hægt að sækja píanótónleika í Egilsstaðakirkju, óperu í Herðubreið á Seyðisfirði, skoða heiðarbýli á Vopnafjarðarheiði með ferðafélaginu eða vera við uppsetningu skilta til minningar upp strönduð skip í Öræfum.

Píanótónleikar í Egilsstaðakirkju

Tóleikar verða haldnir í Egilsstaðakirkju í kvöld, þar leikur Peter Máté sjö verk fyrir einleikspíanó eftir John Speight. Peter er fyrrverandi tónlistarkennari og organisti á Suðurfjörðum og núverandi píanókennari við Listaháskóla Íslands.

Peter segir tónleikana nokkuð  óhefðbundna. „Hlustendur eru auðvitað vanari að heyra Mozart eða Beethoven eða eitthvað bland af öllu mögulegu. En þessir tónleikar eru eingöngu tileinkaðir einu tónskáldi og það er John Speight vinur minn. Hann er Englendingur sem flutti til Íslands fyrir mörgum árum. Hann er söngvari upphaflega, tónskáld líka og hefur kennt tónlist víða og verið formaður Tónskálda félags Íslands. Hann hefur samið fjöldann allan af verkum, meðal annars fyrir sinfóníuhljómsveit, kammersveit og svo þessi píanó einleiksverk. “

Peter hefur flutt mörg píanóverka Johns Speight í gegnum tíðina en síðastliðin tvö ár hefur hann unnið markvisst að því að læra öll píanóverk tónskáldsins. „Ég byrjaði að læra píanóverkin hans fyrir löngu síðan, hann samdi líka verk sérstaklega fyrir mig fyrir 20 árum, sónötu fyrir píanó, en nú er kominn tími á það að ég spili öll verkin hans á einum tónleikum og það eru dálítil tíðindi bæði fyrir mig og fyrir hann en vonandi fyrir tónleikagesti líka,“ segir Peter.

Það er sjaldgæft að heilir tónleikar séu tileinkaðir einu nútímatónskáldi en Peter segir að tónleikagestir megi búast við skemmtilegum tónleikum „Þessi verk eru auðvitað samtímatónlist og frekar langt frá því að vera ljúf klassík eða rómantísk verk. Þetta eru andstæðumiklir píanótónleikar sem ég ætla að fremja, verk sem eru með miklum andstæðum bæði mjúkar línur og harðir hljómar. Þetta eru sjö verk í 17 stuttum köflum. Einkenni píanótónlistar Johns Speight eru sérstakar hljómasamsetningar, en líka ljúfar melódíur þar sem hann er jú söngvari í grunninn.“


Heiðarbýlin á Vopnafjarðarheiði og minnisvarði um strönduð skip

Á laugardag stendur ferðafélagið fyrir göngu á Vopnafjarðarheiði þar sem gengið verður að tíu Heiðarbýlium. Farið verður á bílum á milli og gengið að hverju býli og hjá hverju býli er hólkur sem inniheldur upplýsingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því. Býlin sem heimsótt verða í eru Arnarvatn, Desjamýri, Kálffell, Brunahvammur, Foss, Lindarsel, Háreksstaðir, Melur, Ármótasel og Gestreiðarstaðir. Brottför kl. 9 frá Tjarnarási 8 á einkabílum.

Á laugardaginn verða einnig sett upp tvö skilti á áningarstað vestan og upp með Kvíá í Öræfum. Annað skiltið er með kortum af skipsströndum og raflýsingu á bæjum í Öræfum en hitt með upplýsingum um strand togarans Clyne Castle. Þann 17.apríl árið 1919 strandaði breski togarinn Clyne Castle frá Grimsby á Bakkafjöru í Öræfum. Þrettán skipbrotsmenn komust heilu og höldnu í land og til síns heima en Austfirðingar keyptu togarann á strandstað og töldu þeir sig þar eiga auðvelt verk fyrir höndum við að koma honum á flot. Eftir árangurlaust erfiði í fimm sumur frá 1919 – 1923 var þessu björgunarstarfi hætt því allir fjármunir voru búnir. Til minningar um þetta var ákveðið að gera minnismerki um Clyne Castle og önnur strönduð skip á Suð-austurströndinni. Skiltin verða sett upp klukkan 14.00 á laugardaginn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.