Gleði, fjör og hæfileikaríkir unglingar á æskulýðsmóti á Reyðarfirði

kirkjumot_feb13_web.jpg
Um 100 unglingar og leiðtogar þeirra frá 10 stöðum á Norður- og Austurlandi hittast á árlegu æskulýðsmóti kirkjunnar sem haldið verður Reyðarfirði um helgina og boðið verður upp á fjölbreyttar smiðjur og verkstæði.

Þar verður unnið með leiklist, myndlist, tónlist, lærð glíma, hægt að kynna sér starf í björgunarsveit eða gerast fjölmiðla- og gjörningafólk. Sunnudaginn 10. febrúar kl. 13:30 verður guðsþjónusta í Eskifjarðarkirkju, þar sem unglingarnir sína afrakstur sinn. Messan er öllum opin og allir hvattir til að koma meðan húsrúm leyfir.

HÆfileikakeppni NorðAusturlands (HÆNA) er hluti af dagskrá mótsins, þar sem unglingarnir láta ljós sitt skína með söng, tónlist, tjáningu og dansi og á sunnudeginum verða úrslit í árlegri spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi. Þess utan er fjölbreytt dagskrá, þemastundir, kvöldvökur, sundlaugardiskó og margt fleira. 

Yfirskrift mótsins að þessu sinni er „Samfélag í trú og gleði“ og á mótinu verður unnið með orð Davíðssálma: „Ég varð glaður er menn sögðu við mig: Göngum í hús Drottins“ (Sl. 122.1).

Unglingarnir gista í Grunnskólanum á Reyðarfirði og þar á staðnum fer dagskráin að mestu leyti fram en allir hóparnir koma svo saman í æskulýðsmessu í Eskifjarðarkirkju á sunnudaginn 10. febrúar kl. 13:30.

Það er Æskulýðssamband kirkjunnar á Austurlandi sem stendur fyrir mótinu og er þetta fimmta árið í röð sem æskulýðsfélögin á Norður- og Austurlandi hittast á sameiginlegu móti snemma árs, ýmist fyrir norðan eða austan! Markmiðið er að veita unglingunum vettvang til að koma saman, kynnast og öðlast nýja lífsreynslu á uppbyggilegri samveru án vímuefna, þar sem gildum kristinnar trúar er miðlað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.