Furðu lostnir ME-ingar horfðu upp á lögregluna handtaka kennarann í tíma

me.jpgNemendur í sálfræði í Menntaskólanum á Egilsstöðum sátu eftir furðu lostnir eftir að lögreglan fór inn í tíma og handtók einn af kennurum skólans. Hópurinn róaðist nokkuð þegar upplýst var að um sálfræðitilraun hefði verið að ræða.

 

„Þannig er mál með vexti að við vorum að vinna með geðshræringar í sálfræðinni og ég fól nemendunum að skapa andrúmsloft ákveðinnar geðshræringar í kennslustund og láta samnemendur upplifa viðkomandi geðshræringu. Þetta var hópavinna og fékk hver hópur úthlutað einni af grunntilfinningunum sex; gleði, reiði, sorg, ótta, viðbjóð og undrun,“ útskýrir kennarinn, Freyja Kristjánsdóttir.

Nemendurnir fengu frjálsar hendur til að nota „öll lögleg og siðleg ráð til túlkunar.“ Hópurinn,  sem átti að vekja undrun sló rækilega í gegn þegar þeir fengu lögregluna til að koma í tímann og handtaka kennarann.

„Um klukkan 11:40 á föstudegi mættu tveir lögregluþjónar í Menntaskólann á Egilsstöðum, komu við í afgreiðslunni hjá Kristjönu og stöldruðu þar við, gengu síðan inn í kennslustund þar sem ég var með nemendur mína og handtóku mig!

Annar lögregluþjónanna spurði mig til nafns. Ég lék auðvitað með og þóttist vera mjög undrandi, spurði hvort eitthvað væri að og þá sýndi hann mér (falsaða) handtökuskipun. „Hvað er þetta?“, sagði ég og svarið var: „handtökuskipun“. Þögnin sem ríkti í kennslustofunni var þrúgandi og mátti heyra strokleður detta.
„Komdu með okkur, gæskan“ sagði hann og beindi síðan orðum sínum að nemendunum: „Skólameistari kemur til ykkar eftir smá stund og ræðir við ykkur“. Síðan leiddu tveir lögregluþjónar mig út úr stofunni, gegnum anddyri skólans, út í lögreglubíl og óku í burtu með mig.“

Nemendurnir sem eftir sátu vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið. Nýjar stöðuuppfærslur birtust á Facebook um leið og lögreglubíllinn hvarf. Hópurinn fékk hæstu einkunn fyrir verkefni en um jafningjamat var að ræða þar sem nemendurnir gefa hverjir öðrum einkunn.
 
„Og mér skilst að ég hafi unnið til óskarsverðlauna fyrir leik og tjáningu,“ bætir Freyja við brosandi enda mikil áhugamanneskja um leiklist.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.