Frábært tækifæri til að kynnast öðrum: Austfirsk ungmenni á ráðstefnu á Hvolsvelli

umfi_ungt_folk_lydraedi_2012_0011_web.jpg
Um eitt hundrað ungmenni úr öllum landshornum eru samankomin á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem haldin er á Hvolsvelli um helgina. Ungmennin hafa meðal annars fengið fræðslu um mannréttindi, hópefli og gildi sjálfboðaliðavinnu.

„Þetta er gott tækifæri til að læra nýja hluti og kynnast fólki,“ segir Erla Gunnlaugsdóttir frá Fljótsdalshéraði sem er meðal þátttakenda á ráðstefnunni.
 
Undir þetta tekur Sigurbergur Ingi Jóhannsson úr ungmennaráði Fjarðabyggðar. „Það er gaman að kynnast ungmennaráðum, heyra hvernig þau starfa og bera okkur saman.“ 

Forseti Íslands ávarpaði ungmennin í morgun. Hann minntist sérstaklega á hversu miklu máli tæknin og samfélagsmiðlar skipta orðið í lífi fólks og lýðræðisþróun í dag. Annar fyrirlesari, Jörgen Nilsson, benti á móti á dekkri hliðar tækninnar.

„Hvernig verða börnin til í framtíðinni?“ spurði Jörgen og sýndi mynd af pari sem horfði sitt í hvora áttina og var annars vegar í símanum og hins vegar í tölvunni.

„Ég fer einu sinni í mánuði og leik mér,“ sagði Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna í sinni ræðu. „Við eigum að passa upp á barnið í okkur.“ Margrét María kynnti unglingunum réttindi þeirra, til dæmis mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Sigurgeir Birgisson og Magnús S. Guðmundsson sögðu frá hópeflisleikjum og sálfræðinni að baki þeim. Þeir bentu á að margir kynnu leikina en þekktu ekki hugsunina sem fylgdi þeim. „Mér fannst það mjög gott því oft skilur maður ekki hver er ástæðan fyrir að maður er látinn fara í ólíka leiki,“ Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir úr ungmennaráði Borgarbyggðar.

Það er Ungmennafélag Íslands sem stendur fyrir ráðstefnunni sem haldin er í þriðja sinn. Unglingarnir eru flestir á aldrinum 16-20 ára en þeim fylgja starfsmenn ungmennaráða. Fjölmörg sveitarfélög starfrækja slík ráð í dag sem og ýmis félagasamtök.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar