Forðast fordæmingu kirkjunnar og að þurfa að loka barnum

Vertarnir í Fjarðarborg á Borgarfirði standa í kvöld fyrir fermingarveislu að dönskum hætti. Með henni fylgja þeir eftir árlegri hefð um að halda stórhátíð að sumri til. Ýmsar hindranir hafa verið í vegi að veislunni í ár.

„Það er ekki fjarri að við séum stressaðri heldur en þegar við fermdumst fyrst,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, einn forsvarsmanna Já sæls sem er með reksturinn í Fjarðaborg.

Vertarnir þar hafa vakið landsathygli með hátíðum undanfarin ár þar sem þeir hafa meðal haldið bæði þorrablót og fagnað jólum í júlíhitanum. Nú er röðin komin að fermingarveislu sem verður með dönsku ívafi.

„Nú er fólk farið að koma með hugmyndir að hátíðum til okkar og upphaflega hugmyndin var að við yrðum fermdir aftur. Einhver hefur talið ástæðu til að við endurnýjuðum heitin. Það er hins vegar enginn prestur búsettur á Borgarfirði og óvíst að nokkur prestur myndi vilja taka þátt í svona löguðu.

Eins rekum við vínveitingastað og þar sem ekki tíðkast að áfengi sé veitt í íslenskum fermingarveislum varð hún að vera dönsk. Við tökum líka fleiri danskar hefðir með, verðum með svínakjöt, pylsur, nóg af remúlaði og fleira sem kemur í ljós.

Við reyndum sem sagt að finna flöt á þemanu sem útheimtir hvorki fordæmingu kirkjunnar né að við þurfum að loka barnum.“

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst hafa um 120 manns boðað komu sína í veisluna en tekið er fram að gjafir til fermingarbarnsins séu afþakkaðar.

Ásgrímur Ingi segir ferðamannasumarið verið gott á Borgarfirði. „Veðrið hefur verið mjög gott og stöðugur straumur fólks. Núna eru Íslendingarnir komnir líka sem og brottfluttir. Umferðin að skoða lundann í Hafnarhólmanum eykst alltaf, það er búið að markaðssetja hann svo vel. Ætli lundabúðirnar í Reykjavík hjálpi okkur ekki.



Rekstraraðilar Fjarðarborgar ásamt átrúnaðargoði sínu, Kim Larsen. Mynd: Hafþór Snjólfur Helgason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.