Fara í fjósið áður en þær fara í skólabílinn á morgnana

„Sameignin telur átta börn,“ segir Auðbjörg Elísa Stefánsdóttir, en hún býr ásamt manni sínum Steinþóri Björnsyni og fjölskyldu þeirra á Hvannabrekku í Berufirði þar sem þau reka myndarlegt kúabú. Að austan á N4 heimsótti líflegt heimilið fyrir jól.


Kúabúið á Hvannabrekku hefur gefið sér gott orð í mjólkurframleiðslu. „Við erum með 211 nautgripi í heildina, með kúm, nautum og kálfum. Af því eru þrjátíu mjólkandi kýr. Ef við höldum okkur í 1A-flokki allar vikur ársins þá flokkast það sem gæðamjólk og viðurkenning er veitt,“ segir Auðbjörg, eða Auja, en kúabúið á Hvannabrekku hefur fimm sinnum hlotið þá viðurkenningu. Mjólkin frá Hvannabrekku er unnin frá Egilsstöðum og fer að mestu leyti í osta.

Mörg handtök á stóru heimili
Auja segir það ganga alveg merkilega vel að sameina barnauppeldi og búskap. „Það er yfirleitt mjög rólegt á virkum dögum þegar krakkarnir eru í skólanum. Mesta vinnan er á Steinþóri sem fer í fjósið klukkan fimm á morgnana, en hann sinnir öllum útiverkum meðan yngsta barnið er svo lítið,“ segir Auja.

Elstu stúlkurnar sem hafa fasta búsetu á Hvannabrekku, Guðrún Lilja (14 ára) og Anna Jóna (11 ára), eru duglegar að hjálpa til og fara með Steinþóri í fjósið áður en þær taka skólabílinn á Djúpavog á morgnana.

„Það er svolítið erfitt stundum þegar maður er búinn að gera það oft í röð, en það er bara hressandi,“ segir Anna Jóna. „Þú verður að sætta þig við að þurfa að hjálpa,“ bætir Guðrún Lilja við.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar