„Fann fljótt að mig langaði að verða háseti“

Hrönn Hjálmarsdóttir var aðeins tvítug þegar hún fékk fyrst boð um að vinna um borð í togara og þurfti þá að vera mætt um borð rúmum tveimur tímum síðar. Hrönn starfaði síðar sem vinnslustjóri um borð í Barða.

„Ég hafði oft hugsað að það væri gaman að fara út á sjó. Ég vissi að þar fékk maður meiri laun en þau störf fengu bara strákar eða karlar.

Svo gerist það einn daginn að ég er í vinnunni í frystihúsinu að það er beðið um mig í símann. Í símanum var Hebbi Ben (Herbert Benjamínsson) skipstjóri á Barða og spyr hvort ég geti komið út með þeim sem kokkur klukkan eitt. Þetta var um hálf ellefu og að sjálfsögðu sagði ég já.

Ég þurfti að hlaupa úr frystihúsinu inn á höfn á gúmmístígvélunum til að ná um borð og sjá þegar kosturinn væri tekinn um borð,“ segir Hrönn.

Hún er fyrsti viðmælandi hlaðvarpsins Norðfirðings sem hóf göngu sína í vikunni. Umsjónarmaður er Daníel Geir Moritz og verða fimm þættir sendir út í sumar í samvinnu við Síldarvinnsluna og Austurfrétt.

Beint úr veislu um borð

Hrönn býr í dag á höfuðborgarsvæðinu og hefur getið sér góðs orðs sem heilsumarkþjálfi en í viðtalinu rifjar hún upp æsku- og uppvaxtarárin á Norðfirði.

Öfugt við mörg ungmenni fór Hrönn ekki beint í framhaldsnám að loknum grunnskóla heldur skoðaði heiminn og vann í frystihúsi Síldarvinnslunnar. Um tvítugt fór hún síðan í nám og meðfram því vann hún á sjó.

Hún byrjaði sem kokkur enda hafði hún þá að baki eitt ár í Reykjavík sem kokkanemi en hugurinn stefndi lengra.

„Ég sá fljótt að mig langaði rosalega að verða háseti. Ég ræddi það oft við Hebba en svar hans var alltaf blátt nei, hann skyldi aldrei setja kvenfólk á dekk. Ég hafði það þó á endanum í gegn.

Ég var að þjóna í veislu í Egilsbúð þegar þangað er hringt og í símanum er Herbert Benjamínsson. Hann spyr mig hvort ég geti komið með þeim út klukkan níu, hann vantaði háseta með tveggja tíma fyrirvara.

Ég sagði aftur strax já, fékk leyfi til að hlaupa úr vinnunni, stökk úr þjónagallanum og heim til að finna til föt. Ég mætti síðan um borð uppstríluð og fínt.“

Langflestir ánægðir

Þá var fátítt að konur störfuðu til sjós en Hrönn segir að henni hafi almennt verið tekið vel. „Langflestir voru ánægðir, þó ekki alveg allir en ég stóð mig ágætlega. Eftir þetta fékk ég oft afleysingatúra á Barða. Ég varð aldrei sjóveik og fannst þetta alltaf gaman.“

Hrönn vann sem bæði kokkur á Barða og Bjarti og fór meðal annars tvo túra í Smuguna. Síðar varð hún vinnslustjóri um borð í Barða.

„Þá var nýbúið að breyta honum í frystitogara og ég var ráðin sem vinnslustjóri og var það í eitt ár. Starfið snérist um gæðastjórnun, að taka sýni og passa fjölda beina, orma og þess háttar. Ég var fenginn því ég var vön snyrtingu úr frystihúsinu en allir um borð voru óvanir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar