Fæðingarorlofið varð að krabbameinsmeðferð

Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, 26 ára Egilsstaðabúi, var komin 32 vikur á leið og hlakkaði til að fara í fæðingarorlof þegar hún greindist með eitilfrumukrabbamein í september síðastliðnum. Meðferðin hefur gengið vel og telst hún nú laus við meinið en síðustu mánuðir hafa breytt sýn hennar á lífið.

„Ég fann hnúð ofan við vinstra viðbeinið síðasta vor. Ég hummaði fram af mér að láta kíkja á þetta, hugsaði með mér að þetta væri bólginn eitill auk þess sem einkennin sem ég fann fyrir, eins og þreyta og svefnleysi pössuðu við meðgönguna.

Þegar hnúðarnir voru orðnir þrír fór ég til læknis hér sem sendi mig í ómskoðun á Akureyri og þaðan fór ég í tölvusneiðmyndatöku í Neskaupstað. Þegar við, Steinar Atli Hlynsson maðurinn minn, vorum að keyra til baka hringir læknirinn hér í mig og biður mig um að hitta sig á heilsugæslunni. Þá hugsaði ég strax að þetta væri krabbamein. Við hittum hann og hann sagði okkur að það hefðu fundist massar í hálsi, holhönd og brjóstholi sem bendi til krabbameins.

Mín fyrsta hugsun var að krabbamein þýddi dauði. Fyrst kom þögn, svo brotnaði ég niður. Ég man að ég reyndi að hætta að gráta til að geta hlustað á útskýringar læknisins. Hann sagði við hefðum nægan tíma og ég mætti alveg gráta. Hann sagði okkur að eitlakrabbamein væri auðlæknanlegt, lífslíkurnar væru um 95%. Ég komst síðar að því að þessi 5% eru ekki þau sem deyja heldur þau sem þurfa fleiri meðferðir eða meira inngrip. En þótt einhver segi þér 95% lífslíkur hugsarðu samt mest um þessi 5%.

Við Steinar fórum heim og hringdum í foreldra okkar sem komu strax. Ömmur og afar Steinars komu stuttu síðar. Ég á þrjú eldri systkini sem ég hringdi í og sagði fréttirnar. Elsta systir mín segist enn heyra mig segja „ég er með eitlakrabbamein.“ Ég hringdi líka í vinkonur mínar og sagði þeim frá veikindunum.

Þetta var ótrúlega skrýtinn dagur. Við náðum í tveggja ára son okkar, Hafstein, á leikskólann. Mér fannst sárt að fá hann heim, þennan dag hugsaði ég að ég myndi deyja frá honum. Fyrstu dagarnir einkenndust af þessum hugsunum.“

Komin að þolmörkum fyrir fæðinguna

Þetta var 22. september og Aðalheiður þá gengin 32 vikur með soninn Rúrik, sem liggur stilltur í vöggu sinni við hlið hennar meðan við tölum saman. Hann kom í heiminn 29. október. „Ég vissi það strax að það þyrfti að setja fæðinguna fyrr af stað en ég var þó heppin að vera komin þetta langt. Ég var sett af stað gengin 36 vikur og 6 daga. 37 vikur telst full meðganga. Það var með ráðum gert þannig við fengjum meiri þjónustu og utanumhald því með þessu telst Rúrik síðfyrirburi.

Fæðingin gekk vel en var erfið. Ég var komin með svo miklar þrengingar í brjóstholið, hálsinn var orðinn margfaldur af æxlum, þannig ég átti erfitt með að anda. Ég gat ekki lengur farið í göngutúra, þá stóð ég á öndinni. Ég átti erfitt með að gefa honum brjóst, ég gat ekki horft niður og andað.

Síðar fékk ég að vita að læknirinn á Akureyri hefði sagt þegar hann sá myndir af mér að ég þyrfti að komast strax undir læknishendur því það sáust þrengingar á lungnapípunum, en mér leið þokkalega. Það var ákveðið að lengja meðgönguna eins og hægt var. Ég held þetta hafi verið komið að þolmörkum þegar ég var sett af stað,“ segir Aðalheiður.

Meinið að hverfa

Aðalheiður Björt segir að strax eftir fæðinguna hafi æxlin á hálsinum margfaldast. „Ég fann þau stækka. Það var eins og líkaminn héldi í við þau meðan ég var ólétt. Eftir fyrstu lyfjagjöfina fann ég þau strax minnka. Það var léttir, ég vissi að þau væru ekki komin til að vera.“

Aðalheiður fór í fyrstu lyfjagjöfina í Reykjavík en hefur síðan kosið að keyra norður til Akureyrar því það styttir fjarveruna frá fjölskyldunni eystra. Hún er nú búin með fimm lyfjagjafir af tólf og staðan er góð.

„Ég fór í skanna fyrir um mánuði og þar lýstust engin æxli upp, sem bendir til þess að meinið sé horfið en eitlarnir geta verið bólgnir til frambúðar því það myndast örvefur. Í framhaldinu var hægt að taka út hættulegasta lyfið af þeim fjórum sem ég var að fá.

Meðferðin er kláruð til að tryggja að allar krabbameinsfrumur sem geta leynst einhvers staðar drepist. Það lítur því allt vel út en ég held að hræðslan um að þetta taki sig upp aftur muni alltaf fylgja mér. Maður er í ströngu eftirliti næstu fimm árin, svo þetta er ekki búið eftir síðustu lyfjagjöfina.“

Veikindaleyfi í stað fæðingarorlofs

Eins og Aðalheiður hefur lýst var dagurinn sem greiningin var staðfest harmþrunginn og erfiður. Hún segir að þau Steinar hafi þó snemma tekið stefnuna á að berjast áfram á jákvæðninni.

„Steinar var ótrúlega hræddur í fyrstu. Við vorum að melta fréttirnar á sama tíma og allir komu heim til okkar, hágrátandi því í þeirra huga jafngilti krabbamein lífslokum. Það var skrýtið að allir grétu út af mér og okkur, syrgðu lífið sem við áttum því það væri búið.

Það er margt sem breytist við tíðindin, fólk talar öðruvísi við þig. Það var erfitt að fara með strákinn í leikskólann fyrstu dagana á eftir því þau sem vissu um meinið komu öðruvísi fram við okkur, sýndu okkur vorkunn. Það var óþægilegt því við vildum eiga venjulega daga. Við ákváðum strax að tækla þetta af æðruleysi, við gátum ekkert gert annað en að mæta í lyfjagjafir og vera jákvæð. Við höfum líka beðið fólkið okkar að haga sér eins og ekkert hafi í skorist en passað að vera dugleg að ræða hvernig okkur líður.

Það erfiðasta í þessu öllu saman, og sennilega það sem ég mun aldrei sætta mig við, er að vera á leið í fæðingarorlof, sem er einstaklega hamingjuríkur tími þar sem allir eru glaðir, en vera svo kýld niður og þurfa í lyfjameðferð.

Hræðslan við að deyja leið hratt hjá. Ég gat ekki hugsað um að ég ætti bágt því það hefði getað haft vond áhrif á barnið mitt. Mitt aðalverkefni var að halda því heilbrigðu og koma því þannig í heiminn.“

Ég er ekki í fæðingarorlofi núna heldur veikindaleyfi. Ég fer í lyfjagjafir á tveggja vikna fresti fram á sumar, þá lýkur meðferðinni og fæðingarorlofið tekur við. Ég var að vinna á Dyngju og sé ekki fram á að fara þangað aftur fyrr en 2022. Endurhæfingin byrjaði um leið og greiningin lá fyrir, en ég ætla að nýta fæðingarorlofið í hana og byrja svo rólega að vinna.

Steinar hefur verið í fæðingarorlofi en fær síðan orlof vegna veikinda maka. Ég hefði ekki getað verið ein heima með strákana. Líðan mín eftir lyfjagjöf er misjöfn, stundum hef ég þurft að leggja mig við að hengja upp þvott, aðra daga get ég allt. Ég veit það bara aldrei fyrirfram. Ég frétti utan úr bæ að ég væri rúmliggjandi en ég hef aldrei verið þannig.“

Lífið er núna

Aðalheiður Björt segist hafa farið heim með tíðindin eftir greininguna og loforð um að hjúkrunarfræðingur myndi hafa samband. Það var efnt og hefur hún getað leitað til hjúkrunarfræðings og læknis í heimabyggð eftir föngum.

Hún leitaði líka fljótt til starfsmanns Krabbameinsfélags Íslands á Austurlandi auk þess sem þau Steinar skráðu sig í Kraft, stuðningsfélags fyrir unga krabbameinssjúklinga og aðstandendur. Hún segir að hún hafi þurft að taka fyrsta skrefið en eftir það hafi hún fengið mikinn stuðning frá félögunum.

Aðalheiður segir óhjákvæmilegt að fólk endurmeti líf sitt eftir að hafa gengið í gegnum svona erfið veikindi. „Slagorð Krafts er „lífið er núna“ og það er ótrúlega rétt. Þú áttar þig á hvað er mikilvægt, í hvað þú vilt eyða tíma þínum, þegar þú lendir í svona áfalli. Mig langar ekki að eyða sex tímum á dag í að horfa á sjónvarpið heldur fara út til að gera hluti, vera með fólkinu mínu og njóta þess að vera til. Maður fattar að maður lifir bara einu sinni og reynir að gera það besta úr því.“

Viðtalið birtist í heild sinni í Austurglugganum 4. febrúar en er hér í styttri útgáfu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.