Eyrarrósin afhent á morgun: 700IS tilnefnd

700is.jpgKvikmyndahátíðin 700IS Hreindýraland er meðal þeirra þriggja verkefna sem tilnefnd eru til Eyrrarrósarinnar sem afhent verður í sjöunda sinn á morgun.

 

Eyrarrósin er samvinnuverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands til viðurkenningar framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Dorrit Moussaieff, forsetafrú, afhendir verðlaunin.

Auk 700is eru Sumartónleikar í Skálholti og Þórbergssetur tilnefnd til verðlaunanna. Í umsögn dómnefndar um 700IS segir:

„700IS Hreindýraland er alþjóðleg kvikmynda- og vídeólistahátíð sem haldin er á Egilsstöðum. Hátíðin var fyrst haldin árið 2006 og stendur yfir í vikutíma í mars ár hvert.

Áhersla er lögð á að sýna tilraunakennda kvikmyndalist og á hátíðin í góðu samstarfi við skóla á Fljótsdalshéraði sem og innlendar og erlendar menningarstofnanir. Virk þátttaka Héraðsbúa sem og öflugt Evrópusamstarf gefur hátíðinni mikið gildi og skipuleggjendur hafa unnið frumkvöðlastarf í kynningu myndbanda- og vídeólistar.

700IS Hreindýraland er áhugaverður bræðingur listgreina sem auðgar menningar- og mannlíf á Austurlandi sem og alla ferðaþjónustu á svæðinu, með því að laða að erlenda og innlenda listamenn og gesti utan hefðbundins ferðamannatíma.“

Bræðslan fékk verðlaunin í fyrra og áður hefur LungA hlotið þau.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar