„Elli er kominn 5 kílómetra en ætlar sér að klára í það minnsta 42“

Hreyfi- og fjölskylduveislan „Öll sem eitt“ verður haldin á Reyðarfirði og í Reykjavík næstkomandi laugardag, til stuðnings Elíasi Geir Eymundssyni og fjölskyldu hans.



Elías Geir er fertugur fjögurra barna faðir á Reyðarfirði, í sambúð með Ragnheiði Ingibjörgu Elmarsdóttur.

Hann fór út að hlaupa laugardaginn 2. apríl síðastliðinn þar sem hann datt niður og fékk heilablóðfall í hægra heilahvel, svokallaða flysun, sem ekki er algeng en kemur í flestum tilfellum fyrir ungt fólk.

Elías Geir er vinamargur og hafa nokkrir þeirra tekið sig saman og ætla að standa fyrir viðburðinum Öll sem eitt. Einn þeirra er Jóhann Eðvald Benediksson.

„Þegar á reynir þá er fátt betra en að finna fyrir stuðningi, samheldni og samhug fólksins í kringum okkur. Elli er nú á ráslínu í „maraþoni“ þar sem margar brekkur eru framundan. Við viljum leggja okkar af mörkum og blása honum, og fjölskyldu hans, byr í seglin,“ segir Jóhann.


Mikill samhugur í samfélaginu

Öll sem eitt verður við andapollinn á Reyðarfirði og í Reykjavík verður komið saman við bryggjuna þar sem Viðeyjarferjan kemur að, fyrir neðan Klettagarða. Stuðið hefst klukkan 10:30 á báðum stöðum.

„Við viljum hvetja alla til þess að koma saman og sýna Ella og fjölskyldu hans samstöðu með því að gera það sem hann hefur gaman af, sem er hreyfing og að koma fólki saman. Það munum við gera með því að hlaupa og hjóla, alveg eftir því hvað hver vill. Þetta verður svona samstöðu stund, byggð á jákvæðni til að senda góða strauma til Ella.“

Jóhann segist finna mikinn samhug í samfélaginu og að mikill áhugi sé fyrir viðburðinum á laugardag.

„Það gefur okkur sem að þessu standa ótrúlegan kraft auk þess sem maður sér hvað Elli er sjálfur spenntur og hræður fyrir þessu. Hann fylgist vel með hvað margir ætla sér að mæta og hlakkar til að fá myndir af laugardeginum, bæði frá viðburðinum fyrir austan og sunnan. Hann bað mig um að skila kveðjum frá sér með þökk til allra sem hafa sent honum kveðjur og öllum þeim sem ætla að koma saman á laugardaginn, hann á ekki orð yfir því hvað hann er heppinn að búa í svona samhentu samfélagi og hvað hann er ríkur af vinum.“


Bíður óþreygjufullur eftir að hefja endurhæfingu

Staðan á Elíasi Geir er sú að hann er á taugadeild Landsspítalans, í hægum bata.

„Hann er kominn vel til meðvitundar og er samur við sig, stutt í húmorinn og jákvæðnina. Hann glímir við lömun á vinstri hlið líkamans ásamt öðrum fylgikvillum heilablóðfalls í hægra heilahveli. Tíminn leiðir svo í ljós hve mikið er hægt að endurheimta en hann hefur náð að hreyfa vinstri fótinn aðeins og er byrjaður í þjálfun á spítalanum þar sem allt er gert til að reyna að örva líkamann.

Elli bíður óþreygjufullur eftir því að geta hafið sína endurhæfingu á Grensás, en fyrst þarf hann að gangast undir aðgerð á höfði. Þannig það má líkja þessu við að hann sé að hefja langhlaup þar sem hver vika er eins og kílómeter – Elli er kominn 5 kílómetra en ætlar sér að klára í það minnsta 42,“ segir Jóhann.

  • Þátttökugjald fyrir fullorðna er 2.000 krónur, eða frjáls framlög, og ókeypis fyrir börn.
  • Að lokinni góðri morgunhreyfingu, verða grillaðar pylsur, blöðrur fyrir börnin og mun Sprettur sporlangi mæta og halda uppi stuðinu.
  • Þeir sem hafa áhuga á að styrkja Ella og fjölskyldu, geta lagt inn á reikning: 0569-14-400100 og kt: 061280-4139.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.