Elfar Aðalsteins hlýtur lof fyrir stuttmynd: Stoltur af Eskjuárunum

elfar_adalsteins_john_hurt_sailcloth.jpgElfar Aðalsteinsson, fyrrverandi forstjóri Eskju, kann vel við sig í Lundúnum þar sem hann spreytir sig á kvikmyndagerð. Nýjasta stuttmynd hans hefur fengið lofsamlega dóma. Aðalpersóna hennar byggir á fósturföður Elfars, Aðalsteini Jónssyni.

 

„Myndin er tileinkuð honum sem heildstætt verk. Það eru margar persónulegar tilvitnanir í hann en ég læt fólki eftir að finna sína eigin túlkanir. Það er best þannig“ segir Elfar í samtali við vikublaðið Austurgluggann.

Þar ræðir Elfar um stuttmyndina Sailcloth sem hlotið hefur mikla athygli. Hún hlaut aðalverðlaunin á Rhode Island kvikmyndahátíðinni í sumar, sem tryggir henni sjálfkrafa sæti í forvali fyrir framlag stuttmynda til Óskarsverðlaunanna og fyrri skemmstu fékk hún International Cinema Achievement verðlaunin í Grikklandi.

Í Sailcloth er sagt frá eldri herramanni sem strýkur af elliheimili. Hann tekur stefnuna á bryggjuna þar sem gamall félagi býður hans, tilbúinn í þeirra seinustu för.

Aðalhlutverkið er í höndum John Hurt, þekkts bresks leikara sem árið 1980 fékk Óskarsverðlaunin fyrir túlkun sína á Fílamanninum. Hann er þekktur fyrir frábæra rödd en athyglisvert við myndina er að hún er án tals.

Elfar segir að Hurt hafi tekið vel í myndina eftir að Elfar, sem leikstýrir og samdi handritið, sendi það til Hurts. „Umboðsmanninn hafði svo samband viku síðar og sagði að John vildi hitta mig í spjall. Hann er þekktur fyrir að taka að sér hlutverk sem honum finnst áhugaverð og sagði eftir spjallið „Elfar, let‘s go make a film“.

Elfar hefur undanfarin sex ár búið í Englandi efir að hann seldi hlut sinn í Eskju. „Ég er stoltur af þeirri uppbyggingu sem ég stóð fyrir á mínum rekstrarárum en eins og ég sagði var ráðning mín tímabundin og minn draumur var ekki að reka útgerðarfyrirtæki - þó svo að aðrir hefðu hugmyndir um að ég ætti að gera slíkt,“ segir Elfar í nýlegu viðtali í DV um Eskjuárin.

Þar segist hann þó fyrst og fremst vilja ræða það sem hann gerir í dag. Elfar var framleiðandi íslensku kvikmyndanna Mamma Gógó og Sveitabrúðkaups. Von er á nýrri stuttmynd frá Elfari á nýju ári . Sú ber heitið Subculture og er tökum á henni lokið. Þar segir frá Darryl og Lily sem af ólíkum ástæðum hafa flust í skuggahverfi Lundúnaborgar. Eftir erfiða nótt leita þau að leiðum út úr sívaxandi erfiðleikum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.