Ekki frekari afskipti af máli yfirlæknis hjá HSA

Ríkisendurskoðun lýsti því yfir í dag að stofnunin myndi ekki aðhafast frekar í máli Hannesar Sigmarssonar, yfirlæknis Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) á Eskifirði. Heilbrigðisráðuneytið er hvatt til að huga að viðeigandi úrræðum.

Í bréfi Ríkisendurskoðunar segir að yfirlæknirinn hafi í að minnsta kosti 26 tilvikum á tveimur um það bil mánaðarlöngum tímabilum á árunum 2007 til 2009 ofkrafið HSA um þóknanir fyrir vinnu sína. Þetta kom í ljós í úttekt sem stofnunin gerði á störfum læknisins. Hann var seinasta vetur sendur í leyfi frá störfum vegna gruns um fjárdrátt með rangri reikningsaðferð. Lögreglan á Eskifirði og ríkissaksóknari höfðu áður fjallað um grunsemdirnar en fellt ransókninni niður.

Eftir útttektina óskaði Ríkisendurskoðun eftir því að ríkissaksóknari rannsakaði málið að nýju. "Hann vísaði því til lögreglustjórans á Eskifirði sem síðar ákvað að fella það niður þar sem erfitt væri að sanna ásetning í meginþorra rannsóknartilvika. Var þó viðurkennt að færslum hins kærða á sjúkraskrá hefði verið ábótavant og reikningagerð hans hefði vakið grunsemdir um misferli. Ríkisendurskoðun sendi þá ríkissaksóknara fyrirspurn um hvort hann hygðist aðhafast frekar í málinu en svörin gáfu til kynna að ekki væri við því að búast nema honum bærist formleg kæra,"segir í tilkynningunni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar