Einstakt að kindur lifi 80 daga undir snjó: Fannar-Hatta á enn Íslandsmetið

rolla_brekkugerdi_web.jpg
Framkvæmdastjóri Landssambands sauðfjárbænda segir einstakt að kindur lifi áttatíu daga grafnar undir snjó. Hann kveðst ekki muna eftir slíku tilviki í seinni tíð. Skjalfestar heimildir greina frá Fannar-Höttu sem lifði af átján vikna vist undir snjó.

„Ég tel þetta vera einstakt að kindur lifi svona lengi,“ segir framkvæmdastjórinn, Sigurður Eyþórsson, aðspurður að því hvort mörg tilvik séu um kindur sem lifað geti af áttatíu daga vist undir snjó. Austurfrétt greindi í gær frá kind frá Brekkugerði í Fljótsdal sem fennti í kaf 1. nóvember og fannst á lífi um 20. janúar.

„Ég ekki um nein tilvik sem komast nærri 80 dögum hin síðari ár. Lengsta staðfesta tilvikið í Suður-Þingeyjarsýslum nú í haust var 45 dagar undir snjó, en til eru skjalfest tilvik frá fyrri árum sem eru allt upp í 9 vikur.“

Fannar-Hatta var hið mesta metfé 
 
Sigurður segir þó ekki útilokað að „elstu menn“ muni eftir kindum sem héldu lengur út. Í Búnaðarriti frá árinu 1896 er sagt frá Fannar-Höttu  frá Rauðhúsum í Eyjafjarðarsveit. Sagan er ekki tímasett en Sigurður segir að frásögnin sé líklega frá byrjun 18. aldar. Þar segir að fé Ólafs bónda, þar með talið Hatta, hafi fennt í kaf að hausti er bóndinn var í skreiðarferð. „Enginn karlmaður var þá heima í Rauðhúsum, er leitað gæti fjárins“

Þegar Ólafur kom heim úr ferðinni fór hann að leita fjárins. Margt af því fann hann dautt. Höttu, sem honum þótti vænt um, fann hann hvergi. Hún kom í ljós er hlánaði á útmánuðum en Ólafur gekk þá hvern dag eftir fönninni í leit að skrokknum af Höttur, sem hann taldi „löngu dauða.“ Í frásögninni segir að kindin hafi verið orðin svo mjög og létt að bóndinn „líkti henni við ullarvindil.“

Ærin var tveggja vetra er sagan gerðist. Henni var haldið geldri og „var því að haustinu vel feit og hin föngulegasta.“ Hún braggaðist vel eftir að hún fannst. „Og kom það aldrei fram síðar, að hún hefði orðið fyrir þessum hnekki. Hatta varð 12 vetra gömul og þótti ætíð vænsta skepna og mesta metfje!“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.