Egilsstaðir besti staðurinn til að vera edrú

„Ég var alltaf með svo mörg hliðarverkefni á borð við þýðingar og aðra textavinnu, þannig að mig langaði að athuga hvort ég gæti tekið allar aukabúgreinarnar og búið til fullt starf úr þeim fyrir mig,“ segir Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, eigandi forlagsins Bókstafs á Egilsstöðum, en hún var í viðtali í Austurglugganum í síðustu viku.Sigríður Lára, eða Sigga Lára eins hún er alltaf kölluð, er bókmenntafræðingur, framkvæmdastjóri, þýðandi og leikskáld, auk þess að reka stórt heimili. Hún stofnaði Bókstaf í ársbyrjun 2015 í kjölfar brautargengisnámskeiðs. Nú, þremur árum síðar, hefur forlagið gefið út sextán bækur, ýmist þýddar eða skrifaðar af austfirskum höfundum.

Fyrir þetta var Sigga Lára búin að kanna hvernig farið væri að því að eignast útgáfurétt að erlendum bókum, en hana dreymdi um að láta þýða bók eftir einn af sínum eftirlætishöfundum, írska metsöluhöfundinn Marian Keyes. Rétturinn fékkst og bókin Rachel fer í frí var gefin út í þýðingu Sigurlaugar Gunnarsdóttur vorið 2015.

„Ég hafði ekki tíma til þess að þýða hana sjálf en í næsta húsi við mig sat atvinnulausi þýðandinn Sigurlaug og því fékk ég hana með mér í lið. Við fengum styrk frá Vaxtarsamningi Austurlands til þess að gefa hana út og þá formlega stofna Bókstaf.“

Forlagið gaf alls út fimm titla fyrsta árið, tíu í fyrra og þeir verða líklega fjórir til sex í ár. „Þetta var svolítið bratt, en auðvitað fór ég „all-in“, eins og alltaf. Í fyrrasumar var ég, eins og áður sagði, í fyrsta skipti greind með alvarlegt starfsþrot en ég var farin að vakna upp í kvíðakasti hvern einasta morgun. Ég var aftur sett á geðlyf og í starfsendurhæfingu hjá StarfA, Starfsendurhæfingu Austurlands, þar sem ég var í allan vetur. Ég er bara nýútskrifuð þaðan og er nú í eftirfylgni hjá VIRK. Ég er á því að fleiri ættu að nýta sér þetta úrræði áður en allt er komið í þrot.“

„Ég ætla að reyna að haga mér“
Sigga Lára segist vera meðvitaðri og passa betur upp á heilsuna sína eftir veruna í VIRK. „Mig langar svo sannarlega ekki í fleiri starfsþrot og nú kemur í ljós hvað ég hef lært í vetur, til dæmis að setja hreyfingu og hvíld ekki í aftursætið þó svo mikið sé að gera. Þetta fer allt einhvern veginn, ég er að reyna að finna út hvernig ég vil hafa líf mitt, en ég ætla að reyna að haga mér.“

Lífið breyttist eftir hún hætti að drekka
Tvö ár eru síðan Sigga Lára hætti að drekka áfengi. „Ég var aldrei í mikilli drykkju í seinni tíð en drakk alltaf mjög illa og var óttalega pirripú þegar ég var edrú. Að vera alki snýst ekki endilega um hve oft þú drekkur, heldur að hafa engan stoppara. Ef maður er ómögulegur ef maður kemst ekki annað slagið á fyllerí þá er maður heldur ekki á góðum stað – en forði þeim sem reynir að segja manni þetta.“

Sigga Lára fór að sækja AA-fundi og segir það besta lífstílsnámskeið sem hægt er að finna og ókeypis að auki. „Ég segi fólki alltaf að Egilsstaðir séu besti staðurinn til þess að vera edrú en hér eru sex AA-fundir á viku og allir barir fara á hausinn á nokkrum mánuðum. Ég hef unnið mikið í mér þennan tíma og hef eignast góða vini gegnum samtökin. Fólk trúir mér ekki þegar ég segi því að það sé bara ógeðslega gaman á AA-fundum.“

Sigga Lára segir að líf sitt hafi breyst eftir að hún hætti að drekka. „Allt hefur breyst en samt ekkert. Þrátt fyrir að það væri aldrei drykkja á heimilinu og ég hafi ekki áttað mig á því að drykkja mín hefði áhrif á allt sagði dóttir mín þegar ég var búin að vera edrú í ár: „Mamma, það er eins og hjartað í þér sé að stækka,“ en þetta þótti mér alveg ægilega krúttlegt að heyra.“

Rosalega mikið af höfundum fyrir austan
Sigga Lára segir að hún horfi björtum augum á framtíð Bókstafs. „Það er rosalega mikið af höfundum hér fyrir austan og við höfum þurft að vísa frá okkur ótal handritum. Við erum að læra á markaðinn, hvað gengur og hvað ekki, hvað á að gefa út að vori og hvað um jól. Við erum að grafa okkur út úr skuldafeninu en við gáfum okkur þrjú ár til þess að skríða upp á raunhæfan rekstrargrundvöll. Sjálfa langar mig hvorki að vera framkvæmdastjóri eða almannatengill forlagsins lengi, mig langar bara til þess að skrifa og þýða. Draumurinn er því að geta ráðið fólk í það, sem og ritstjórnarstöður, og skapa þannig störf fyrir fólk í hugvísindageiranum.“

Ljósmynd: Steinrún Ótta Stefánsdóttir. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar