Deigið kláraðist á fyrstu opnunarhelginni

Mikil eftirspurn varð til þess að deigið kláraðist á fyrstu opnunarhelgi nýs pítsastaðar á Egilsstöðum. Þar verður meðal annars lögð áhersla á áleggstegundir úr héraði.

„Við getum ekki kvartað yfir aðsókninni,“ segir Friðrik Bjartur Magnússon, einn aðstandenda Asks pizzeria sem opnaði fyrir gestum fimmtudaginn í síðustu viku.

Miklar vinsældir urðu til þess að deigið kláraðist á laugardagskvöldi og því var ekki hægt að hafa staðinn opinn sunnudag og mánudag.

„Við fundum fyrir miklum áhuga í aðdraganda opnunar. Við auglýstum ekkert en fengum svona fína aðsókn. Á föstudeginum þurftum við að hætta að taka við pöntunum klukkan sjö um kvöldið. Biðtíminn var þá orðinn svo langur að við vildum ekki bjóða fólki upp á hann og við kláruðum að afgreiða þær pantanir sem komnar voru rúmum tveimur tímum síðar.

Á laugardagskvöldið kláraðist allt deigið sem við höfðum keypt fyrir helgina. Við vorum til klukkan níu að klára allar pantanir. Við tókum ekki við fleiri en við áttum deig í,“ segir Friðrik Bjartur.

Meira deig var pantað á sunnudag en þau koma ekki undir eins úr Reykjavík og því var lokað. „Við þurftum líka tíma til að anda og rýna í hvernig hægt væri að bæta verkferla og herða á. Maður lærir margt á fyrstu dögunum. Núna erum við tilbúin í slaginn.“

Heiðagæsir og Egilsstaðaostur

Friðrik Bjartur stendur einnig að baki kránni Aski sem er við hliðina. Hann segir hvatann að pítsastaðnum hafa verið spurningar bargesta eftir mat. Þegar svæðið við hlið kráarinnar hafi losnað hafi verið stokkið á það.

Þar er áhersla lögð á hráefni og vinnsluaðferðir um heimabyggð. „Við erum með súrdeigspítsur bakaðar í ofni kyntum með birki frá Víðivöllum. Við reynum að gefa hverri pítsu keim af svæðinu, við erum með eina með heiðagæsum og notum ost af Egilsstaðabúinu. Við eigum eftir að vinna með þetta.“

Heiti pítsanna er dregið af íslenskum dægurlagatextum, til dæmis heitir grænmetispítsan „Er nauðsynlegt að skjóta þá?“ eftir lagi Bubba. „Við getum breytt seðlinum eins og okkur hentar því nóg er til af góðum íslenskum lagatitlum,“ segir Friðrik Bjartur.

Brugghúsið reiðubúið að tvöfalda framleiðsluna

Friðrik Bjartur er einnig yfirbruggari hjá Austra brugghúsi sem er í sama húsnæði og starfsemi Asks. Það hefur bætt í fyrir sumarið.

„Við fengum ný tæki í síðustu viku. Við erum komin með 1000 lítra tæki í stað 350 lítra og tvo stærri gerjunartanka. Með þeim erum við tilbúin að auka framleiðslu um að minnsta kosti helming.

Við erum að fara að sérframleiða að minnsta kost tvo bjóra fyrir Vök baths. Þeir eru bruggaðir úr jarðvarmavatni. Þótt það sé aðeins steinefnaríkara en kalda vatnið er það betri grunnur í marga bjórstíla.“

Þá fékk vörulína Austra silfurverðlaun á uppskeri hátíð Félags íslenskra teiknara nýverið fyrir myndskreytingar. „Eysteinn Þórðarson hefur teiknað merkin okkar og fjöllin sem prýða bjórana okkar. Hann hefur séð um að gera þessa flottu línu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar