Borgfirðingum boðið á Bræðsluna og heyskapur gengur loksins vel

ImageÞeir sem eiga lögheimili á Borgarfirði eystri fá frítt inn á tónlistarhátíðina Bræðsluna um helgina. Guðmundur Magni Ásgeirsson, bræðslustjóri, segir von á góðri skemmtun. Hann nýtir ferðina til Borgarfjarðar í heyskap.

 

„Heyskapur gengur vel loksins - sviðið er að verða tilbúið og strax farið að streyma að fólk,“ sagði Magni í samtali við Agl.is í gær. Bræðslan sjálf er á laugardagskvöld en byrjað var að hita upp fyrir hana með dagskrá í félagsheimilinu Fjarðaborg í gær.

Þetta árið koma fram hljómsveitirnar Dikta, 200.000 naglbítar, enska sveitin Fanfarlo, auk systkinanna KK og Ellenar. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 á laugardagskvöld og líkt og síðustu árverða þeir sendir út í beinni útsendingu á Rás 2.

Öllum þeim sem eiga lögheimili á Borgarfirði er boðið á tónleikana í tilefni þess að hátíðin fékk í vetur Eyrarrósina, verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni

 „Við gerum það til að sýna þakklæti okkar á öllum þeim stuðning sem við höfum fundið fyrir öll árin sem Bræðslan hefur verið við lýði. Það eina sem fólk þarf að gera er að gefa sig fram við miðasöluna með sönnun þess að það sé það og fá armbandið sitt.“

Tónleikar verða í tengslum við Bræðsluna í kvöld og annað kvöld, bæði í Álfakaffi og Fjarðarborg. Í kvöld syngja Bergþór Pálsson og Egill Ólafsson saman og á morgun mætir Jónas Sigurðsson með nýja hljómsveit, Magni spilar með The Haftors og hljómsveitin Vax kemur fram.

„Veðurspáin segir að veðrið ætli að leika við okkur þetta árið og við vonum bara að allir þeir sem mæta í fjörðinn skemmti sér fallega og ákaflega vel.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.