Allir leggja sínar senur í púkk

Listahópurinn Orðið er Laust sýnir á miðvikudags og fimmtudag samsköpunarverk sitt Þremil á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Þegar er orðið uppbókað á eina af fjórum sýningum.

Starfsemi hópsins er samstarfsverkefni sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar með skapandi sumarstörf fyrir ungmenni og hefur hópurinn farið líða um fjórðunginn í sumar, meðal annars troðið upp á bæjarhátíðum og þegar skemmtiferðaskip hafa átt leið um.

Síðustu tvær vikur hefur hópurinn unnið að verkinu Þremli, sem þau lýsa sem samsköpunarverki. „Það er enginn leikstjóri heldur leggja allir sitt framlag í púkk,“ segir Natalía Gunnlaugsdóttir, ein hinna níu meðlima listahópsins.

„Við byrjuðum á að hugstorma með orð, völdum nokkur úr og gerðum spuna út frá þeim. Við fórum með margar mismunandi hugmyndir og nokkrar þeirra standa eftir,“ bætir María Jóngerð Gunnlaugsdóttir við.

Sviðsverkið inniheldur því senur frá hverjum og einum í hópnum, níu talsins. Það er von á að verkið verði súrrealískt þar sem senurnar tengjast ekki innbyrðis. Í verkinu er líka videoverk eftir einn meðlima hópsins og tónlist eftir annan. Að auki verður sýning á skrifverki eftir þriðja meðlim hópsins sem tengist verkinu beint og óbeint.

„Við erum búin að fara aðeins fram og til baka. Við erum með mismunandi áhugasvið og blöndum þeim saman,“ segir Natalía.

„Okkur fannst gaman að gera eitthvað stórt saman því við erum búin að starfa sem hópur í sumar,“ bætir María Jóngerð við.

Þremill verður sýndur í Bragganum við Sláturhúsið á Egilsstöðum klukkan fimm og sjö á morgun, miðvikudag. Aðgangur er ókeypis en æskilegt að bóka miða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Uppbókað er á seinni sýninguna en þær upplýsingar fengust að reynt yrði að bæta við stólum eða finna áhugasömum gestum pláss eins og hægt væri. Þá sýnir hópurinn á sömu tímasetningum á Stríðsárasafninu á Reyðarfirði á fimmtudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.