Sóknarfæri fyrir tónlistarhátíðir í stórbrotnu landslagi: Fjarlægðin Austfirðingum fjötur um fót

braedslan 2103 0101 webHægt er að nota það stórbrotna umhverfi sem margar íslenskar tónlistarhátíðir eru haldnar í til að vinna að  enn frekari markaðssetningar þeirra erlendis. Margvísleg hagræn áhrif hljótast í nærsamfélaginu af þeim hátíðum sem ganga vel. Fjarlægðin er það sem helst virðist hamla austfirsku hátíðunum.

Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu ÚTÓNs, útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar um íslenskar tónlistarhátíðir. Markmið hennar er meðal annars að kanna áhuga forsvarsmanna tónlistarhátíðanna á samstarfi í markaðssetningu, meðal annars á erlendri grundu.

Tónlistarhátíð er skilgrein sem „viðburður sem fer fram á einum eða fleiri dögum á sama svæði þar sem fjöldi tónlistarmanna eða hljómsveita koma fram og aðaláhersla viðburðarins er á tónlist.“ Þrjár austfirskar hátíðir falla undir þá skilgreiningu: Bræðslan, Eistnaflug og Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi (JEA).

Eistnaflug er ein þeirra hátíða sem hafa verið í samstarfi við ÚTÓN og hafa erlendir blaðamenn sótt hátíðina heim í gegnum það samstarf.

Í skýrslunni er meðal annars tekin fyrir þau hagrænu áhrif sem hátíðirnar hafa á sitt samfélag. Verslun eykst, félagasamtök fá rekstrartekjur af gæslu og þjónustu og á vinsælum hátíðum eru gistiplássin uppbókuð. Slíkt gerist til dæmis bæði í Neskaupstað og á Borgarfirði þegar hátíðirnar eru þar.

„Viðburðirnir laða fólk að hvaðanæva af landinu fyrir tilstilli tónlistarhátíðarinnar sem þar er haldin,“ skrifar skýrsluhöfundur og bendir á að nágrannabyggðir njóti einnig góðs af gestunum.

Eistnaflug er nefnd sem dæmi um hátíð sem komin sé með stóran hóp fastagesta og JEA um þær sem komið hafi sér upp góðum samböndum utan landssteinanna en tónlistarmenn frá Vesterålen í Noregi hafa verið fastagestir á henni síðustu ár.

Sóknartækifæri felast fyrir hátíðir eins og Bræðsluna og Eistnaflug sem haldnar eru „í stórbrotnu landslagi. Þetta samspil tónlistar og náttúru getur verið markaðsþáttur sem tónlistarhátíðir hér á landi geta nýtt sér enn fremur utan landsteinanna.“

Spurning er hvort skipuleggjendur hafi hug á að nýta sér það því eftir sumum þeirra er haft að hátíðin sé í þægilegri stærð eins og er.

Hátíðirnar auka einnig veg þeirra byggðarlaga þar sem þær eru haldnar. „Þetta eru fjölskylduvænir tónleikar sem auka veg staðarins og þeirra sem búa,“ er haft eftir Magna Ásgeirssyni þegar hann er spurður um helstu kosti Bræðslunnar.

Fjarlægðir frá helstu þjónustukjörnum virðist það sem helst truflar austfirsku hátíðirnar.. „Kostnaður við allt eykst vegna staðsetningarinnar og þá sérstaklega flutningskostnaður,“ segir Magni.

Í svipaðan streng tekur Guðný Lára Thorarensen, forsvarsmaður Eistnaflugs. „Hún er of langt í burtu og kostnaðarsamt er fyrir gesti að ferðast á staðinn og fá gistirými í bænum innandyra.”

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.