Aðventa skáldsins á Skriðuklaustri gefin út á rússnesku: Vitund manna um Gunnar fer vaxandi

adventa russlandAðventa eftir Gunnars Gunnarsson, sem kom fyrst út árið 1936, verður gefin út á rússnesku nú á föstudag. Þetta er í fyrsta sinn sem bók eftir Gunnar er gefin út í Rússlandi en áður hafa birst smásögur í tímaritum.

Það er forlagið Text Publishers í Moskvu sem gefur verkið út og þýðandi er Tatjana Shenyavskaya, íslenskukennari við Moskvuháskóla. Útgáfuna prýða teikningar eftir Gunnar Gunnarsson myndlistamann, son skáldsins.


Sagan um desembergöngu Benedikts á öræfum Íslands í leit að kindum og baráttu hans við illviðri og eigin sálarkvöl er sú bóka Gunnars sem víðast hefur farið og náð til milljóna lesenda. Með útgáfu hennar á rússnesku bætist stórt málsvæði við og Stofnun Gunnars Gunnarssonar sem fer með höfundarrétt skáldsins vinnur nú að því að hún komi út á fleiri útbreiddum tungumálum.

Útgáfa bókarinnar verður kynnt í Moskvu samhliða opnun á sýningu í gallerí FotoLoft, einu af Winzavod galleríunum í miðborg Moskvu, á ljósmyndum Sigurjóns Péturssonar af vetrarríki á Fjöllum. Sýning Sigurjóns heitir „Aðventa á Fjöllum“ og er afrakstur margra ferða um öræfin norðaustanlands veturinn 2010-2011. Innblástur sótti Sigurjón í Aðventu Gunnars og þannig kallast ljósmyndirnar á við tilvitnanir í sögunni um Fjalla-Bensa. Sýningin hefur áður verið sett upp m.a. í Þjóðminjasafni Íslands og á Skriðuklaustri.

Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar er nú staddur í Rússlandi af þessu tilefni. „Ástæðan fyrir þessari útgáfu núna er 70 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Rússlands. Það er ástæða þess að þetta verkefni fór af stað. Sú hugmynd kom upp að fara með vetrarmyndir Sigurjóns Péturssonar sem unnar voru í samstarfi við Gunnarsstofnun 2011 til Moskvu og þá var ómögulegt annað en reyna að fá Aðventu útgefna líka og það tókst.“

Útgáfa Aðventu og sýning Sigurjóns í Moskvu eru hluti af viðburðaríkri dagskrá sem efnt hefur verið til síðasta árið í tilefni afmælisins. ODRI, vináttufélag Íslands og Rússlands, ásamt sendiráðum ríkjanna hafa komið að skipulagningu sýningar og útgáfu í samstarfi við Gunnarsstofnun og Sigurjón Pétursson auk þess sem Actavis í Rússlandi styður verkefnið.

En á Gunnar Gunnarsson erindi við lesendur í dag, svo löngu eftir að verk hans komu fyrst út?

„Aðventa er saga um glímu mannsins við sjálfan sig og á jafnmikið erindi við samfélagið í dag og þegar hún var skrifuð á fjórða áratugnum. Mannlegt eðli breytist lítið og við erum stöðugt að leita að sannleikanum og leita að einhverri handfestu í lífinu líkt og Benedikt.“ segir Skúli Björn og bendir á að höfundarverk Gunnars eru enn í dag að koma út.

„Nýjar þýðingar á Vikivaka og Svartfugli hafa komið út á þýsku á síðustu fjórum árum. Aðventa er einnig gefin reglulega út hjá Reclam í Þýskalandi og seldist t.d. á síðasta ári í 2000 eintökum þar sem telst ágætt miðað við bók sem kom fyrst út 1936.

Vitund manna um Gunnar fer einnig vaxandi enda hefur Gunnarsstofnun unnið ötullega að því að kynna hann. Þar sem fjölskyldan fól stofnuninni líka að fara með höfundarréttinn þá er hægt að vinna markvisst að bæði kynningu á honum og útgáfu. Þannig verður núna í tengslum við ljósmyndasýninguna og útgáfuna sett upp lítil sýning í gallrí FotoLoft um Gunnar.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.