Ýmsar leiðir færar um Hvalnes- og Þvottárskriður

Jarðgöng undir Lónsheiði eru meðal þeirra kosta sem koma til greina til að auka öryggi vegfarenda sem í dag keyra um Hvalnes- og Þvottárskriður en aðrir kostir kunna að vera hagkvæmari. Göngin eru meðal þeirra sem skoða á í sérstakri jarðgangaáætlun sem samþykkt var að gera samhliða nýrri samgönguáætlun.

Endurbætur á leiðinni um skriðurnar hafa lengi verið til skoðunar innan Vegagerðarinnar. Helstu vandamálin eru grjóthrun, snjóflóðaspýjur og að vegurinn stendur sums staðar tæpt.

Á miðvikudag í síðustu viku var leiðin lokuð á fimmta tíma eftir að stóreflisskriða féll í Þvottárskriðum. Búið er að veita 150 milljónum til að lengja stálþil í Hvalnesskriðum í haust en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hafa stálþil reynst vel á svæðinu.

Tíu göng til skoðunar

Samhliða því að samgönguáætlun til 15 ára var samþykkt á Alþingi í lok júlí var samþykkt að ráðist yrði í gerð jarðgangaáætlunar. Til stendur að meta kostnað og hagfræðilegan ábata nokkurra jarðganga og út frá þeirri athugun verði jarðgangakostum forgangsraðað til lengri tíma.

Samkvæmt bókun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þingsins á við forgangsröðun að líta til öryggissjónarmiða, styttingar akstursleiða og áhrifa ganga á atvinnulíf og vinnusóknarsvæði. Þar segir enn fremur að mikil eftirspurn sé eftir jarðgöngum í öllum landshlutum og augljóst að stórauka þurfi rannsóknarfé til jarðganga.

Jarðgöng um Seyðisfjörð til Héraðs og Norðfjarðar eru þegar á samgönguáætlun og því ekki meðal þeirra tíu kosta sem skoða á við gerð jarðgangaáætlunarinnar. Þar eru hins vegar tvenn göng á svæðinu. Annars vegar milli Vopnafjarðar og Héraðs, hins vegar undir Lónsheiði milli Álftafjarðar og Lóns.

Þriggja kílómetra göng talin óraunhæf

Samkvæmt svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar var árið 2007 gerðar kannanir á leiðinni um Hvalnes- og Þvottárskriður sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að framtíðarlausnin væru jarðgöng undir Lónsheiði. Þau yrðu 3 km löng, vestari munninn í 120 metra hæð skammt frá brúnni á Traðar gili en að austan í 230 metra hæð í Heiðardal.

En jarðgöng í 230 metra hæð leysa ekki allan vanda. Í svari Vegagerðarinnar kemur fram að brekkur að göngunum myndu valda sífelldum erfiðleikum í hálku þar sem vörubílar þyrftu að setja á keðjur. Þá er bent á að Almannaskarð, ögn sunnar, fer mest í 153 metra hæð en undir það voru gerð göng og heiðin bakvið Reynisfjall er fer í 120 metra hæð. Þar eru göng til skoðunar vegna vandræða í brekkunum. „Þessi ganga leið er því ekki talin raunhæf,“ segir í svarinu.

Ýmsar lausnir hagkvæmari?

Önnur lausn eru göng með munna í 50 metra hæð að vestan og 70 metra hæð í Starmýrardal að austan. Þau göng yrðu um 6 km löng. Þó nokkur vegagerð yrði út Starmýrardalinn, að hluta til um sérstakt landslag.

Þá er áætlaður kostnaður við þessi löngu göng um 15 milljarðar króna. Á það er bent í svarinu að fyrir það megi gera ýmislegt til bóta á núverandi leið fyrir brot af þeirri upphæð. Þá voru fleiri gangakostir skoðaðir í úttektinni árið 2007, til dæmis tvenn stutt göng sem yrðu 1 og 1,3 km. Munnar þeirra þykja erfiðir en ekki ómögulegir.

Þegar drög að samgönguáætlun voru lögð fram í fyrrahaust var þar að finna setningu um að leysa mætti leiðina um skriðurnar með vegskálum. Sú setning var felld út í lokameðferðinni. Vegskálar eru iðulega yfir munnum jarðganga hérlendis, en í þessu tilfelli yrði þá væntanlega steypt yfir hluta leiðarinnar í skriðunum. Í svari Vegagerðarinnar kemur fram að skálarnir séu um það bil helmingi dýrari á hvern metra en jarðgöng en þeir yrðu alltaf styttri í heildina. Framkvæmdin yrði því líklega ódýrari og þeir gætu því hentað á einhverja kafla.

Úr Þvottárskriðum í síðustu viku. Mynd: Vegagerðin


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.