Yfirlæknir rukkaði fyrir endurlífgun sem aldrei fór fram

hannes_sigmarsson_jpg_280x800_q95.jpg

Hannes Sigmarsson, fyrrverandi yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð, á að hafa rukkað fyrir endurlífgun sem aldrei fór fram. Landlæknisembættið segir það aðeins gert í einum tilgangi, til að ofgreidd laun. Vegna þessa var Hannesi vikið frá störfum í ársbyrjun 2009. Hann hafnar ávirðingum um að hafa „falsað“ endurlífgun.

 

Það var gert eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um embættisverk Hannesar. Skýrslan hefur aldrei verið gerð opinber en vikublaðið Austurglugginn hefur hana undir höndum og birti á föstudag í fyrsta skipti upplýsingar opinberlega úr henni.

Í frétt blaðsins kemur fram að aðfaranótt 3. janúar 2009 hafi lögreglan komið með unga stúlku sem þjáðist af áfengiseitrun til yfirlæknisins þáverandi. Hannes skráði embættisverkið sem endurlífgun sem samkvæmt skilgreiningu er „staðfest hjarta- og/eða öndunartopp, sem krefst endurlífgunaraðgerða að lágmarki hjartahnoðs og eða blásturs.

„Í samskiptaseðlinum er því líst að læknirinn hafi farið með stúlkuna á FSN til frekari aðhlynningar þar tekur læknir FSN á móti stúlkunni og ritar Læknabréf um málið þar sem fram kemur að engin endurlífgun hafi átt sér stað og að um áfengiseitrun hafi verið að ræða.  

Trúnaðarlæknir Ríkisendurskoðunar segir í skýrslunni að sjúklingurinn hafi ekki verið í lífshættu og „engin endurlífgun átti sér stað.“ Ekki verði séð að nokkuð af því sem fellur undir skilgreininguna á endurlífgun hafi verið gert.

Austurglugginn segist hafa fengið staðfestingu hjá Landlæknisembættinu á „að svona skráning geti eingöngu átt sér stað í ákveðnum tilgangi þ.e. til þess að fá hærri greiðslur en viðkomandi læknir bar að fá.“

Hannesi var vikið frá störfum rúmum mánuði síðar, þann 12. janúar. Fyrst til bráðabirgða á meðan lögreglurannsókn stóð yfir. Ekki var gefin út ákæra í málinu þar sem ekki þóttu líkur á sakfellingu. Hannesi var samt vikið endanlega frá störfum og er nú meðal lækna Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Í yfirlýsingu sem Hannes sendi fjölmiðlum fyrir helgi eru fullyrðingar Austurgluggans um að læknirinn hafi „falsað endurlífgun“ sagðar „fjarstæðukenndar.“ Hann hefur höfðað dómsmál á hendur stofnuninni og forstjóra hennar fyrir ólögmæta uppsögn og meiðyrði. Dóms er vænst á næstu vikum.

Haustið 2009 fór Austurglugginn/Agl.is, sem þá tilheyrðu sömu ritstjórn og eigendum, fram á það við Ríkisendurskoðun, landlækni og heilbrigðisráðuneytið að fá afrit af öllum gögnum málsins með vísan til upplýsingalaga. Meðal annars var sóst eftir að fá fyrrnefnda skýrslu Ríkisendurskoðunar afhenta. Við afhendingu gagna var gert skilyrði að Hannes gæfi leyfi fyrir henni. Það leyfi fékkst ekki. Fjölmiðlarnir gátu því ekki birt upplýsingar úr skýrslunni þá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.