Yfir 200 fiskikör með munum úr skriðunum á Seyðisfirði

Munir, sem komið hafa upp úr aurskriðunum á Seyðisfirði í desember, fylla orðið yfir 200 fiskikör. Snjókoma hefur hægt á hreinsunarstarfi undanfarna daga.

Þetta var meðal þess fram kom í máli Hugrúnar Hjálmarsdóttur, umhverfis- og framkvæmdamálastjóra Múlaþings, á upplýsingafundi í gær.

Björgun muna úr íbúðahúsum sem urðu undir skriðunni er langt komin en enn er verið að tína upp mun á svæði skipasmíðastöðvarinnar og Tækniminjasafnsins. Áætlað er að það taki 3-4 vikur í viðbót.

Töluvert magn muna hefur fundist. Aðstaða til að fara í gegnum og hreinsa gripi er í gömlu netagerðinni og eru þar 20-30 fiskikör með þeim.

Þá eru í gömlu mjölgeymslunni um 200 fiskikör með munum frá Tækniminjasafninu en gríðarlega mikið af þeim hefur fundist á svæðinu. Starfsmenn safnsins og aðstoðarfólk frá öðrum söfnum fara í gegnum þá muni.

Hugrún sagði hreinsunarstarfið hafa gengið ótrúlega vel þar til í síðustu viku þegar brast á með éljagangi og hvassvirði. Áður höfðu reyndar hlýindi haft þau áhrif að hægja þurfti á þungaumferð því vegirnir þoldu ekki álagið. Endanleg hreinsun tekur einhverjar vikur en lokafrágangur og ýmis minni verkefni bíða sumarsins.

Þá hefur verið unnið að því að reisa bráðabirgðavarnir. Ofan við hús 13-27 við Botnahlíð er búið að gera farveg og varnargarð sem á að ná inn að Dagmálalæk. Vonast er til að skurðgreftrinum ljúki í vikunni og þá verði hægt að hreinsa upp úr læknum, en skriður féllu ofan í hann. Verkinu lýkur þó ekki að fullu fyrr en í sumar.

Fyrir ofan Múlann er varnargarður að verða tilbúinn. Byrjað er að hreinsa upp úr setþrónni í Búðará en það gengur hægt þar til aftur verður hægt að keyra á vegunum með þung hlöss. Í kjölfarið verður síðan hugað að vörnum í kringum skipasmíðastöðina.

Þá hefur verið unnið að vörnum í kringum Nautaklauf. Þar hefur verið lagfærður garður sem bægir skriðum frá ytri enda Botnahlíðar og annar verður gerður.

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, sagði að þær varnir sem fyrir hefðu verið hefðu gert mikið gagn í skriðuföllunum. Þannig hefði eldri varnargarður við Nautaklauf tekið stærsta grjótið og dregið úr skriðunni sem tók húsið Breiðablik af grunni sínum að morgni föstudagsins 18. desember. Sú skriða er talin hafa verið um 3000 rúmmetrar að stærð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.