Vonbrigði að ekki sé tryggt fjármagn til að fylgja loðnugöngunni til enda

Forsvarsfólk fimm sveitarfélaga sem byggja á uppsjávarveiðum, þar á meðal Fjarðabyggðar og Vopnafjarðarhrepps, lýsa yfir vonbrigðum með að ekki hafi verið gefinn út rannsóknarkvóti á loðnu. Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar segir að rannsaka verði loðnuna, sem sé einn af mikilvægustu fiskistofnum Íslendinga.

Forsvarsfólk Fjarðabyggðar, Vestmannaeyja, Hornafjarðar, Vopnafjarðar og Langanesbyggðar sendu í dag frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna ástands og utanumhalds loðnuveiða.

Þar er lýst miklum vonbrigðum með að sjávarútvegsráðherra, stjórnvöld og Hafrannsóknastofnun hafi ekki gefið út rannsóknakvóta á loðnu, nú þegar hún er að byrja að hrygna. Í ályktuninni segir að með því hefði gefist mikilvægt tækifæri til rannsókna á stofninum auk þess sem hægt hefði verið að verja hrognamarkaði á erlendri grundu fyrir íslenskar útgerðir þetta árið.

Rannsóknakvóti hefði getað skipt miklu

Tvær vikur eru síðasta loðnumælingarleiðangri lauk. Í honum fannst ekki nógu mikil loðna til að hægt yrði að gefa út veiðikvóta. Í morgun hafði Morgunblaðið eftir sviðsstjóra hjá Hafró að útséð væri að verða um loðnukvóta á þessari vertíð.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, óttast að nú séu öll tækifæri að verða runnin mönnum úr greipum. „Eftir síðustu mælingu varð ljóst að ekki yrði gefinn út upphafskvóti en menn vonuðumst eftir rannsóknakvóta. Slíkur kvóti upp á 25-30 þúsund tonn hefði gefið mikilvæga innsýn í stofninn og getað varið markaði en það fer eflaust að verða of seint.“

Grunnrannsóknirnar úreltar?

Í yfirlýsingunni segir ennfremur að það sé ekki síður áhyggjuefni hve mikið skorti upp á nýjar grunnrannsóknir á loðnustofninum við Ísland. Við því verði stjórnvöld að bregðast strax og tryggja fjármagn þannig að Hafrannsóknastofnun geti ráðist í slíkar rannsóknir. Áfall hafi verið að heyra að stofnunin fengi ekki fjármagn til að geta fylgt eftir göngu loðnunnar suður fyrir land, þar sem hún hrygnir áður en hún deyr.

„Það verður að horfa til þess að fá meiri rannsóknir á jafn mikilvægum stofni og loðnan er. Grunnrannsóknir á henni eru mjög gamlar og nú eru að verða breytingar á göngumynstri hennar. Fyrir sjávarútvegsþjóð eins og okkur skipti máli að hafa yfirsýn og þekkingu á nytjastofnunum

Okkur skilst að Hafró hafi óskað eftir að fá að senda skip til að fylgja göngunni eftir til enda en ekki fengið fjármagn. Það finnst okkur mjög miður,“ segir Jón Björn.

Hægir á öllu

Þar til í fyrra hafði loðna verið samfleytt í íslenskri lögsögu frá árinu 1963. Samkvæmt skýrslu, sem tekin var saman fyrir Samtök sjávarútvegsfyrirtækja í fyrra urðu sveitasjóður Vopnafjarðarhrepps og Fjarðabyggðar af tekjum upp á 300 milljónir króna vegna loðnubrestsins í fyrra.

Í yfirlýsingunni er minnt á að sveitarfélögin fimm, sem öll byggi afkomu sína að miklu leiti á uppsjávarveiðum, geti ekki sætt sig við svör sjávarútvegsráðherra í fjölmiðlum um að þau þurfi að taka af sig skellinn af loðnubresti ár eftir ár, án nokkurrar aðkomu eða umræðna við stjórnvöld um tímabundnar aðgerðir til að mæta slíkum áföllum sem hafi ekki bara áhrif á sveitasjóðina.

„Þótt sveitarfélagið taki það með í sínar áætlanir að þessi staða sé möguleiki þá hefur þetta áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin en ekki síður fyrirtækin sem þjónusta þau. Í svona samfélögum þá hefur þetta áhrif á öll fyrirtæki. Þetta þýðir minni vinna og tekjur fyrir fólkið og það hægist verulega á öllu.

Við viljum eiga samtöl við stjórnvöld um hvort hægt sé að koma með einhverjar tímabundnar aðgerðir. Sveitarfélögin hafa fundað sín á milli og munu gera það áfram en við söknum þess að engar viðræður séu við ríkið,“ segir Jón Björn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.