Vonar að sambandið haldi þó hún hafi klippt á lásinn

„Þetta er pínu viðkvæmt mál því það er svo mörgum sem finnst þetta fallegt,“ segir Lára Björnsdóttir, landvörður á Austfjörðum, sem klippti á fyrsta „ástarlásinn“ á svæðinu í vikunni.


Svokallaðir ástarlásar eru þekkt fyrirbæri um allan heim, en pör rita nöfn sín á þá og hengja á grindverk, keðjur eða aðra staði til marks um ást sína. Lásinn sem Lára klippti niður var á Hólmanesi í Eskifirði.

„Slíkir lásar eru líka svo fljótir að eyðileggja keðjurnar og ef það eru hrúgur af þeim verður þetta ekkert sérstaklega fallegt og hvað þá á útsýnisstað. Þess utan er þetta alveg bannað og mér er skylt að fjarlægja alla utanaðkomandi hluti úr friðlandi. Landverðir eru ekkert alltaf sérstaklega vinsælir, en þetta er að verða vel þekkt hérlendis og er allsstaðar fjarlægt af þeim,“ segir Lára.

Samastaður fyrir ástarlása viðskiptatækifæri?
Það voru þau Heike og Denis, sem giftu sig 29. júlí 2017, sem vildu skilja eftir staðfestingu um ást sína við Hólmanes.

„Fólk er sjálfsagt bara með nokkra lása sem það dreifir á ferð sinni um landið. Þau hafa líklega verið í brúðkaupsferð og eru bara svakalega hamingjusöm. Ég ætla bara að vona að sambandið haldi þó svo ég hafi klippt á það,“ segir Lára og hlær.

Lára segist ekki vita til þess að einhver staður sé á landinu þar sem leyfilegt er að hengja slíka lása. „Nei, ég bara held ekki, en væri það ekki bara fínt viðskiptatækifæri fyrir áhugasama? Þá yrði líklega einhver að sjá til þess að fjarlægja þá lása þar sem samböndin halda ekki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.