Vöknuðum einn morguninn við að stríð var hafið

Oksana Snisarenko settist að á Egilsstöðum eftir að Rússlandsher réðist inn í Úkraínu í febrúar árið 2022. Hún segir það hafa verið viðbrigði að koma til Íslands en hafa fengið góðan stuðning.

„Vinkona mín, Iryna Boiko, hefur búið hér í rúman áratug og hún hjálpaði mér og syni mínum til að koma hingað eftir að stríðið braust út,“ segir Oksana. Hún bjó í Cherkasy, um 200 km suðaustur af höfuðborginni Kiev, þegar innrásin hófst að morgni 24. febrúar árið 2022. Um tveimur vikum síðar yfirgaf hún landið og hélt til Íslands.

„Við vöknuðum einn morguninn við að stríð væri hafið. Við vissum ekkert hvað við ættum að gera eða hvert við ættum að fara. Þetta var ógnvænlegt, við heyrðum sírenurnar og það var streituvaldandi, sérstaklega fyrir strákinn minn. Það er erfitt að útskýra líðan fólksins. Margir íbúar fóru úr landinu. Það leiddi til þess að það voru langar bílaraðir á vegunum.“

Viðbrigði að koma í kuldann, myrkrið og vindinn


Mæðginin komu því til Íslands í mars árið 2022. Oksana segir það hafa verið töluverð viðbrigði. „Löndin eru gerólík. Mesti munurinn felst í loftslaginu, við erum vön að það sé hlýrra en hér. Það getur líka orðið mjög kalt í Úkraínu á veturna en birtan er meiri. Þegar við komum var kalt og hvasst hér sem gerði fyrstu dagana erfiða. Við fórum líka úr landi með bara eina ferðatösku.“

Síðan er nóttin björt hér hér hálft árið en svört hinn helminginn. Það getur verið erfitt og þess vegna tók fyrsta árið hér á. Þess vegna skil ég að það sé gott að hafa kost á að geta farið erlendis í frí til að sjá sólina. Við höfum annars aðlagast þessu og líður orðið mjög vel hér núna.“

Þakklát fyrir hjálpina


Oksana hafði áður unnið á snyrtistofu og Iryna hjálpaði henni til að fá vinnu á Snyrtistofu Öldu. „Ég er mjög ánægð með að hafa fengið vinnu á mínu sviði. Ég kann mjög vel við fólkið hér. Egilsstaðir eru ekki stór staður þannig að allir þekkja alla og hjálpast að. Ég fékk til dæmis mikla hjálp meðan ég var að leita að íbúð og vinnu.“

Níu ára syni hennar vegnar líka orðið vel. „Þetta var sérstaklega erfitt fyrir hann í byrjun því hann talaði enga ensku. Skólinn er hins vegar alþjóðlegur, þar eru líka krakkar frá löndum eins og Serbíu og Póllandi. Krakkarnir tala allir saman þannig enska sonar míns hefur batnað og hann er jafnvel farinn að tala pólsku. Stundum eru hann og vinir hans saman að spila tölvuleiki. Þeir segja eitt orð á pólsku, annað á íslensku og hið þriðja á íslensku. Ég skil ekki neitt en þeir skilja hvern annan!

Ég hef líka verið dugleg að spyrja hann hvernig honum líður og hann svarar mér að hann eigi marga vini og kennararnir séu vingjarnlegir. Það gleður mig að heyra.“

Gott að fá styrk í íslenskunámið


Sjálf segist hún hafa náð að bjarga sér vel á ensku auk þess sem hún hafi fljótlega farið að læra íslensku. „Ég er mjög ánægð með að fólk á öllum aldir, frá börnum upp í gamalmenni, geta talað ensku. Þannig er það ekki í Úkraínu. Ég er að læra íslensku og skil orðið töluvert. Málið er erfitt þannig það gengur hægt en ég reyni og stöku sinnum get ég svarað til baka.“

Við íslenskunámið hefur hún meðal annars nýtt sér styrki sem í boði eru frá AFLi Starfsgreinafélagi. „Ég fékk styrk þegar ég fór að læra íslensku og líka þegar ég keypti mér kort í ræktina. Að fá svona pening til baka þekkist ekki í Úkraínu. Þetta er líka í fyrsta sinn sem ég nýti mér þjónustu verkalýðsfélags því þau eru varla til í Úkraínu.“

Viðtalið birtist áður í fréttabréfi AFLs Starfsgreinafélags sem fylgdi Austurglugganum í október 2023. Það er hér endurbirt í tilefni þess að tvö ár eru liðin frá innrás Rússlandshers í Úkraínu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.