Vök baths slær í gegn

Aðsókn að Vök baths er samkvæmt áætlun en sala árskorta hefur farið fram úr björtustu vonum. Útlitið fyrir næsta ár er gott.
Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Vök baths, segir að það hafi vissulega haft áhrif heildaraðsókn á árinu að ekki tókst að opna staðinn um mánaðamótin júní/júlí, eins og áætlað var, en það var ekki fyrr en 27. júlí að formleg opnun var auglýst.


„Við misstum þarna nokkrar mikilvægar vikur af sumarvertíðinni,“ segir Heiður. Það sem kemur þó skemmtilega á óvart er að sala árskorta er mun meiri en við þorðum að vona. Heimafólk hefur tekið staðnum afskaplega vel og nú þegar eru yfir 600 árskort seld og þau eru ennþá að seljast. Við heyrum á fólki að því finnst Vök Baths vera kærkomin viðbót við lífsgæði fólks á Austurlandi, og víðar reyndar.“

Heiður Vigfúsd


Frábær veitingastaður
Austurland er skilgreint sem kalt svæði og hinar heitu uppsprettur í Urriðavatni því takmörkuð og afmörkuð auðlind, ef svo má segja, en afar kærkomin eftir að hún var beisluð, meðal annars í þennan frábæra baðstað. En Vök baths er ekki bara baðstaður, heldur er þar flottur veitingastaður þar sem lögð er áhersla á lífrænt hráefni, sem allt er keypt í heimabyggð. Matseðillinn er léttur: súpur, salöt, samlökur og sushi, svo eitthvað sé nefnt. Ennfremur er boðið upp á drykki hússins; sérblandaða jurtadrykki og bjór sem bruggaður er í Austra brugghúsi.


,,Sushi á föstudögum er orðinn fastur liður en á aðventunni verðum við með sérstaka rétti og hafa margir hópar bókað hjá okkur“ segir Heiður.
„Þessa dagana erum við að endurmeta stöðuna eftir þessa fyrstu mánuði og fara yfir hvað við getum gert betur. Við höfum sett á dagskrá að bjóða upp á ráðstefnur og fyrirtækjafundi í innri hluta veitingasalarins, sem er mjög rúmgóður.
Útlitið fyrir næsta ár er gott. Það virðist sem orðsporið sé að auglýsa staðinn mjög vel. Við lögðum áherslu á góða markaðssetningu, sem hefur skilað sér, en staðurinn sem slíkur hefur greinilega eitthvað aðdráttarafl sem hefur flogið út í kosmóið. Ferðaskrifstofur, bæði innanlands og utan, hafa haft samband að fyrra bragði og pantað fyrir minni og stærri hópa á næsta ári. Þannig að þetta lítur bara mjög vel út.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.