Vök baths opnar í fyrramálið

Vök baths við Urriðavatn opnar fyrir almenningi á morgun. Baðstaðurinn hefur verið prufukeyrður í dag og segir framkvæmdastjórinn fyrstu gestina vera einstaklega ánægða með hvernig til hefur tekist.

„Þeir sem komið hafa að verkinu hafa prófað staðinn fyrir okkur í dag. Þetta er búið að ganga ótrúlega vel. Við erum að standast væntingar og rúmlega það,“ segir Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Vakar.

Heiður segir daginn nýtast til að fá athugasemdir frá fyrstu gestunum og ganga frá síðustu lausu endunum áður en opnað verður fyrir almenningi klukkan ellefu í fyrramálið. Hún býst við mikilli aðsókn um helgina, meðal annars vegna þess að hið árlega Urriðavatnssund fer fram á sama tíma. Aðstandendur Vakar hafa látið vita að um helgina verði ekki hægt að bóka tíma fyrirfram.

Heiður segist finna gríðarlegan áhuga fyrir Vök í nærsamfélaginu. „Við höfum fundið fyrir gríðarlegum áhuga og eftirvæntingu hjá fólki fyrir að koma og prófa.“

Fyrsta skóflustungan að baðstaðnum var tekin í lok maí í fyrra. Síðustu vikur hefur verið unnið nótt sem nýtan dag við að klára smíðar til að geta opnað. „Við erum mjög ánægð með að vera komin á þann stað sem við erum á í dag eftir hamaganginn síðustu viku,“ segir Heiður.

Mynd: Vök baths

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.