Vök Baths fékk nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar

Vök Baths fékk í dag nýsköpunarviðurkenningu Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Fyrirtækið var eitt þriggja sem tilnefnt var til nýsköpunarverðlauna SAF sem Icelandic Lava Show hlaut.

Eliza Reid, forsetafrú, afhenti verðlaunin við afhöfn á Bessastöðum í dag. Icelandic Lava Show fékk aðalverðlaunin, en Vök Baths og Markaðsstofa Norðurlands, fyrir Arctic Coast Way voru tilnefnd og fengu því nýsköpunarviðurkenningu.

Í umsögn dómnefndar er meðal annars komið inn á þá sérstöðu Vök Baths að „vakirnar,“ eða laugarnar séu fljótandi á vatninu og þannig hinar einu sinnar tegundar hérlendis. Þá sé þar einnig eina heita vatnið sem vottað sé drykkjarhæft og það sé nýtt á svæðinu, til dæmis út í te úr jurtum á svæðinu eða sérbruggaða bjóra.

Eins endurspegli hönnum staðarins náttúruna í kring þar sem lerki úr Hallormsstaðaskóg sé í lykilhlutverki.

Rakið er hvernig sjálfbærni sé höfð í hávegum með að notast við sírennsli í laugunum til að viðhalda hreinleika vatnsins og sleppa aukaefnum auk þess sem allt vatnið sé endurnýtt til að hita upp byggingarnar.

„Vök Baths er mikilvæg og ánægjuleg nýjung fyrir Austurland. Staðurinn hefur bæði mikið aðdráttarafl fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn en er um leið nýjung í þjónustu á svæðinu sem færir aukin lífsgæði til heimamanna og nærsveitunga.

Vök Baths er mjög gott dæmi um mikilvægi þess að við hugsum ekki aðeins um það að dreifa ferðamönnum um landið heldur að dreifa fjárfestingum og uppbyggingu um landið. Fjárfesting og uppbygging sem þessi laðar ferðamenn hvaðanæva að til þess að heimsækja Austurland. Þeir eru líklegri til að staldra við og nýta þá þjónustu sem þar er í boði og kynna sér hvað samfélagið á Austurlandi hefur upp á að bjóða,“ segir í umsögninni.

Nýsköpunarverðlaunin eru afhent árlega fyrir athygliverðar nýjungar í ferðaþjónustu til að hvetja til nýsköpunar innan greinarinnar. Þetta er í átjánda skipti sem þau eru veitt og bárust fjórtán tilnefningar til þeirra.

Frá afhendingunni í dag. Eliza Reid, forsetafrú og Bjarnheiður Hallsdóttur, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar ásamt fulltrúum VÖK Baths þeim Hilmari Gunnlaugssyni, Ívari Ingimarssyni og Steingrími Birgissyni. Mynd: SAF


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.