Vitað um loðnu á ferðinni en spurning um magnið

Þrjú veiðiskip sem í gær hófu leit að loðnu hafa ekki enn fundið neitt. Leiðangursstjóri segir að reglulega berist fréttir af loðnu á ferðinni en ekkert sé vitað um magnið, sem skiptir öllu máli. Lítil bjartsýni ríkir fyrir loðnuveiðar ársins þar sem væntanlegur veiðistofn hefur mælst lítill í fyrri rannsóknum.

Það voru Polar Amaroq, Bjarni Ólafsson og Ásgrímur Halldórsson sem héldu til leitarinnar í gærkvöldi. Bjarni lét fyrst úr höfum, rétt eftir kvöldmat en Polar fór síðast af stað, skömmu fyrir miðnætti.

Skipin byrjuðu úti fyrir sunnanverðum Austfjörðum, út af svokölluðu Litladýpi en fikra sig til norðurs. „Loðnan virðist ekki vera gengin þangað sem skipin eru núna. Það kemur svo sem ekki á óvart. Við viljum byrja aðeins fyrir sunnan hana,“ segir Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri.

Hann er um borð í skipi Hafrannsóknastofnunar, Árna Friðrikssyni, sem er ásamt Hákoni EA á Norðfirði. Verið er að bergmálskvarðaskipin en þau halda til leitarinnar síðar í dag.

2017 árgangurinn ekki mælst stór

Áætlað er að Árni Friðriksson verði 19 daga á ferðinni í þessum fyrsta áfanga leitarinnar, auk þess sem hvert veiðiskipanna verði átta daga á sjó. Það fer þó allt eftir veðri og vindum og hvernig leitinni miðar. Byrjað verður á að skoða svæðið úti fyrir Austfjörðum og síðan haldið norður fyrir land áður en endað verður við Vestfirði.

Fréttir hafa borist frá fiskiskipum af loðnu í þorski. Birkir segir þær ekki koma á óvart en meira þurfi til áður en hægt verði að gefa út veiðikvóta. „Við höfum fengið fréttir af loðnu frá veiðiskipum á þessum hefðbundnu slóðum þar sem vænta má loðnugöngu. Við vitum að það er loðna á ferðinni en það er erfitt að átta sig á magni hennar út frá þessum fréttum.“

Engin loðna var veidd í fyrra, þrátt fyrir mikla leit, en hún hafði þá verið veidd hér við land samfleytt frá árinu 1963. Lítil bjartsýni ríkir fyrir leitina sem nú er að hefjast. „2017 árgangurinn ætti að vera uppistaðan í veiðistofni þessa árs. Við mældum hann fyrst ársgamlan árið 2018, þá sáum við mjög lítið. Við mældum hann aftur síðasta haust og fundum lítið,“ segir Birkir.

Þörf á auknum rannsóknum

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð eru meðal þeirra sem kallað hafa eftir auknum rannsóknum á hegðun loðnustofnsins til bæta skilningi á fisktegundinni sem hefur skipt íslenskt efnahagslíf miklu máli í áratugi. Birkir tekur undir að nánari rannsókna sé þörf, meðal annars í ljósi loftslagsbreytinga.

„Loðnuleitin byggir á hefðbundnum aðferðum. Síðustu misseri höfum við í auknu mæli fengið veiðiskip okkur til aðstoðar, en við horfum til þess að ná að mæla útbreiðslusvæðið á þeim litla tíma sem veðrið skammtar okkur.

Það er ljóst að það eru að eiga sér stað miklar breytingar í hafinu hér í kring sem hafa áhrif á hegðun og göngumynstur, til dæmis loðnunnar. Það væri mikilvægt að geta fylgst betur með hvað gerist samfara þessum breytingum með auknum rannsóknum. Til þess þarf meira fjármagn heldur en við höfum í dag.“

Tvö af leitarskipunum, Polar Amaroq og Hákon EA í Norðfjarðarhöfn í gær. Mynd: Síldarvinnslan/Smári Geirsson
Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.