Vill skoða aukinn fylgdarakstur yfir Fagradal

Formaður björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði vill að skoðað verði hvort fylgdarakstur sé góð lausn þegar færð sé vond yfir Fagradal. Tæplega 90 bílar fylgdust að í halarófu á eftir snjómoksturstæki yfir dalinn í gær. Það kom þó ekki í veg fyrir að ökumenn lentu í vanda á leiðinni.

Vegurinn yfir Fagradal lokaðist vegna skafrennings um hádegisbilið í gær. Vegagerðin gaf hins vegar út að bílum yrði fylgt yfir dalinn. Fyrri bílalestin fór frá Egilsstöðum um klukkan fjögur en önnur frá Reyðarfirði upp úr klukkan fimm.

Sú röð var löng, en samkvæmt teljara Vegagerðarinnar á Fagradal voru 87 bílar í henni. Ekki var rætt við ökumenn, eða farið yfir búnað bílanna áður en lagt var af stað að öðru leyti en því að gerð var krafa um að ökutækin væru með fjórhjóladrifi. Því mun hafa verið misjafnlega tekið meðal íslenskra ökumanna, en ekki talið annað hægt en að draga línuna þar.

Ekkert skyggni

Við aðstæður eins og í gær verður mjög blint á Fagradal þannig ökumenn þurfa að keyra eftir stikum. Vegfarendur sem Austurfrétt ræddi við segja að almennt hafi skyggnið verið þokkalegt, á köflum sést í heiðan himinn en talsvert kóf í svokölluðum Græfum, þar sem leiðin lækkar í átt til Héraðs.

Samkvæmt tölum Vegagerðarinnar keyra samtals um 1100-1200 bílar um Fagradal hvern virkan dag á þessum árstíma. Ef einn lendir í vanda vindur það fljótt upp á sig. Það þekkja félagar í Ársól vel enda eru þeir yfirleitt kallaðir út til hjálpar ferðalöngum á Fagradal.

„Við svona aðstæður er oft bara einbreið lína í gegn. Þá eiga bílar það til að festa sig við að mætast. Þeir lenda jafnvel skakkir þannig þeir loka báðum akreinum,“ segir Björn Ó. Einarsson, formaður Ársólar.

„Það hefur stundum legið við slysi þegar við höfum verið að hjálpa fólki þarna því útsýnið er ekkert. Í eitt skipti keyrði bíll á fullri ferð á spilvírinn okkar. Það varð okkur til happs að ekki var búið að festa vírinn,“ segir Björn.

Óþolinmæði og reynsluleysi

Fremst í röðinni var mokstursbíll frá Vegagerðinni og áætlunarrútan þar næst á eftir. Á ýmsu gekk þar fyrir aftan. Hinir öftustu í röðinni voru einn og hálfan tíma á leiðinni yfir dalinn. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni urðu tafirnar vegna óvanra ökumanna sem í versta skyggninu hikuðu og þorðu vart lengra, fóru jafnvel út úr bílum sínum til að kanna aðstæður.

„Við erum öll misjöfn og sumir treysta sér ekki við að keyra í takt við lestina. Það hefur komið upp áður við svona aðstæður,“ segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Reyðarfirði.

Þá voru dæmi um að óþolinmóðir ökumenn tækju framúr öðrum en lentu við það í vandræðum. „Það þýddi ekki neitt, það var bara bíll við bíl,“ segir vegfarandi sem var í bílalestinni í gær um aðstæður.

Sveinn segir heppilegt að grafa með snjóblásara hafi verið að störfum á dalnum þegar halarófan fór þar yfir til að aðstoða þá sem lentu í vandræðum. Til stóð að farnar yrðu fleiri ferðir yfir dalinn í gærkvöldi, en eftir vandræðin sem hér er lýst og þann tíma sem tók að greiða úr þeim var ákveðið að hætta við þær.

Lokanir hundsaðar

Í samtali við Austurfrétt sagði Björn að lokanir á vegum hefðu almennt reynst vel til að koma í veg fyrir að ökumenn leggi út í erfiðar aðstæður á fjallvegum. Alltaf séu þó einhverjir sem annað hvort hundsi lokanir eða skilji þær ekki. Þannig hafi félagar í Ársól fylgst með nokkrum bílum í gærkvöldi keyra framhjá lokunarskiltinu.

„Fólk virðir ekki lokanirnar. Það er vandamál. Við horfðum á fjóra bíla keyra framhjá í gærkvöldi,“ segir Björn og bætir við að þau farartæki hafi öll komist á leiðarenda. Hann bendir þó á að þegar einn komist alla leið og segi öðrum frá geti það verið hvetjandi fyrir þann seinni að fara af stað. Það sé varasamt því aðstæður geta breyst snögglega.

Fylgdarakstur góð lausn?

Björn segir vel athugandi að taka oftar upp fylgdarakstur þegar aðstæður séu vondar á Fagradal. Þannig megi tryggja betur öryggi vegfarenda og minnka álagið á þá sem kallaðir séu til þegar í óefni er komið. „Við höfum oft rætt að það sé einfalda leiðin, frekar en bíða eftir að allt fari í steik.“

Sveinn segir Vegagerðina hafa breytt verklagi sínu við erfiðar aðstæður fyrir 4-5 árum síðan með að taka upp lokanir og fylgdarakstur. Bílalestir í fylgd snjómoksturstækis séu alls ekki nýjar hérlendis og rifjar hann upp að stundum hafi verið fylgst að á leið til Akureyrar yfir Möðrudalsöræfi hér áður. Í byrjun síðustu viku var bílum fylgt yfir Fjarðarheiði.

Sveinn segir verklagið við fylgdaraksturinn í stöðugri skoðun. „Við höfum lært af Norðmönnum í þessum efnum. Þeir eru mjög vanir svona fylgdarakstri. Eftir svona dag förum við alltaf yfir hvað hægt sé að gera öðruvísi, til dæmis hvort það hafi verið keyrt of hratt fyrir lestina. Það er alltaf eitthvað sem má gera betur.“

Framúrakstur í bílalestinni í gær var ekki til mikils. Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.